Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 27. maí 2022 15:41
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Nýr völlur mikil upplyfting fyrir KA - „Gríðarlega jákvætt fyrir félagið"
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Gervigrasið (í rúllunum) sem lagt var á völlinn
Gervigrasið (í rúllunum) sem lagt var á völlinn
Mynd: Akureyri.net
Arnar Grétarsson, þjálfari KA, var til viðtals eftir sigur liðsins gegn Reyni í Mjólkurbikarnum í gær. KA lék sinn fyrsta alvöru heimaleik á tímabilinu því spilað var á nýlögðu gervigrasi við heimili félagsins. Í vor hafði meistaraflokkur liðsins spilað á Dalvíkurvelli líkt og gert var síðasta vor.

Lestu um leikinn: KA 4 -  1 Reynir S.

Arnar var ánægður eftir leikinn og að spila á heimasvæði félagsins.

„Það gefur auga leið að þetta er mikil upplyfting fyrir klúbbinn og alla í kringum klúbbinn; leikmennina og alla sem eru að vinna fyrir klúbbinn að þurfa ekki að far til Dalvíkur að spila heimaleiki. Við getum verið í klefanum okkar og komið hingað út. Þetta er ekki bara upplyfting upp á heimaleikina að gera. Þetta er líka æfingalega, núna erum við komnir með æfingavöll þar sem við getum æft við bestu aðstæður. Það er gríðarlega jákvætt fyrir félagið."

„Svo heldur þessi uppbygging áfram, á næsta ári verðum við komnir með keppnisvöll hérna við hliðina. Það er bara bjart framundan í KA."


Það vantar ennþá stúku við völlinn. Arnar var spurður hvort að það yrði komin stúka fyrir næsta heimaleik í deildinni sem fram fer eftir tæpar þrjár vikur.

„Það er búið að kaupa stúku, rúm 500 sæti sem kemur hérna við hliðarlínuna. Ég á von á því að hún verði komin upp, tekur einhverja tvo daga að setja hana saman. Ég held að það sé samskonar stúka og er á Sauðárkróki. Það mun breyta umgjörðinni enn betur, það verða komin fleiri auglýsingaskilti og svæðið verður betur lokað. Þetta verður þá örugglega skemmtilegur heimavöllur," sagði Arnar.

Í lok viðtals sagði hann svo frá því að hann vildi fá heimaleik í næstu umferð bikarsins eins og allir sigurvegarar í 32-liða úrslitunum nema Pálmi Rafn Pálmason hafa komið inná. Dregið verður í bikarnum á mánudag.
Arnar Grétars: Réðum ferðinni frá byrjun og til enda
Athugasemdir
banner