Franski sóknarmaðurinn Hugo Ekitike fór meiddur af velli í hrikalegu 4-1 tapi Liverpool gegn PSV Eindhoven í Meistaradeildinni í gær sem bætir ofan á vandræði Englandsmeistaranna.
Ekitike átti draumabyrjun með Liverpool á tímabilinu og var þeirra besti maður í fyrstu leikjunum.
Síðan hann sá rauða spjaldið gegn Southampton í enska deildabikarnum hefur hann átt nokkra líflega leiki, en aðeins skorað eitt mark.
Liverpool hefur ekki úr mörgum framherjum að moða, en það gæti farið svo að liðið þurfi að treysta á Alexander Isak, sem var gerður að dýrasta leikmanni Liverpool í sumar, í næstu leikjum.
Ekitike fór meiddur af velli í leiknum gegn PSV en Slot segir hann hafa meiðst í baki.
„Í byrjun síðari hálfleiks fann ég sérstaklega fyrir því að eitthvað væri að Hugo. Það var eins og hann gæti ekki hreyft sig eins og hann gerði í fyrri hálfleiknum. Þess vegna var pressan okkar ekki alveg upp á tíu.“
„Hann sagði mér á fyrstu fimm eða tíu mínútunum í byrjun leiks að hann hafi fundið sársauka í bakinu. Þess vegna þurfti hann að fara af velli,“ sagði Slot.
Undir eðlilegustu kringumstæðum gæti Liverpool treyst á Isak í fremstu víglínu en hann hefur lítið sýnt frá því hann kom frá Newcastle og aðeins skorað eitt mark, sem kom einmitt í deildabikarnum gegn Southampton.
Meiðsli Ekitike bætir ofan á vandræði Liverpool sem hefur tapað níu af síðustu tólf leikjum sínum í öllum keppnum.
Athugasemdir




