Man City leiðir kapphlaupið um Musiala - Man Utd hefur áhuga á Toney - Arsenal endurskoðar áætlanir
   mið 28. febrúar 2024 10:41
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Gaui Þórðar greindist með Parkinson - „Verður að bíða betri tíma"
Guðjón Þórðarson.
Guðjón Þórðarson.
Mynd: Fótbolti.net - Hrafnhildur Heiða Gunnlaugsdóttir
Einn farsælasti þjálfari sem Ísland hefur átt.
Einn farsælasti þjálfari sem Ísland hefur átt.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðjón Þórðarson, einn öflugasti fótboltaþjálfari sem Ísland hefur átt, greindist með taugasjúkdóminn Parkinson á síðasta ári en hann sagði frá þessu á Bylgjunni í morgun.

„Það eru margir sem hafa það verra en ég en manni bregður við þegar maður tapar miklu af heilsunni. Ég greindist með Parkinson og er að glíma við það. Það hefur sjálfsagt verið búið að þróast í einhvern tíma áður, en maður hefur farið á þrjóskunni fram hjá því og ætlað að hrista þetta af sér. En það var ekki hægt í þessu tilfelli. Þetta er fylgifiskur í dag og maður verður að læra að lifa með því," sagði Guðjón en hann segist helstu einkenni sjúkdómsins í sínu tilfelli vera verki og orkuleysi.

„Ég breytist í göngulagi og breytist í orku. Ég var á golfvellinum á Skaganum, bjó rétt hjá, og var orðinn alveg orkulaus. Ég staulaðist heim og það lá við að ég kæmist ekki heim. Maður var að bogna saman. Þá fór ég til læknis og fannst þetta ekki geta verið eðlilegt."

„Ég ætlaði nú að lækka forgjöfina aftur. Hafði komist niður í 10,1 og ætlaði að ná mér niður aftur. En það verður að bíða betri tíma."

Guðjón segir ekkert annað koma til greina en að halda áfram og berjast, það sé eina leiðin. Hann segir hreyfingu hjálpa sér að takast á við sjúkdóminn.

Fékk á dögunum gullmerki ÍA
Guðjón var fyrir stuttu sæmdur gullmerki ÍA en hann er margfaldur meistari með félaginu, bæði sem leikmaður og sem þjálfari. Guðjón varð Íslandsmeistari fimm sinnum sem leikmaður ÍA; árin 1974, 1975, 1977, 1983 og 1984. Hann varð einnig bikarmeistari sem leikmaður fimm sinnum. Hann varð Íslandsmeistari sem þjálfari liðsins í þrígang og bikarmeistaratitlarnir eru tveir sem þjálfari.

Hann stýrði KA einnig til Íslandsmeistaratitils og varð tvisvar bikarmeistari sem þjálfari KR. Hann stýrði íslenska landsliðinu í tvö ár og var svo þjálfari í Englandi, Noregi og Færeyjum. Hann stýrði meðal annars Stoke City og átti þar skemmtilegan tíma.

Hann stýrði síðast Víkingi Ólafsvík en hætti þar sem þjálfari árið 2022.
Athugasemdir
banner