Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   fim 28. maí 2020 12:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Hörður Ingi: Kaplakriki á góðum fótboltadegi er besti staðurinn
Aftur í FH eftir tvö og hálft ár á Skaganum
Hörður Ingi Gunnarsson, U21 landsliðsmaður.
Hörður Ingi Gunnarsson, U21 landsliðsmaður.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hörður fór upp alla yngri flokkana hjá FH og var nokkrum sinnum á varamannabekk aðalliðsins áður en hann söðlaði um 2017.
Hörður fór upp alla yngri flokkana hjá FH og var nokkrum sinnum á varamannabekk aðalliðsins áður en hann söðlaði um 2017.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eftir góðan sigur í Pepsi Max-deildinni í fyrra.
Eftir góðan sigur í Pepsi Max-deildinni í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég átti frábær tvö og hálft ár hjá ÍA og naut hverrar einustu mínútu. Vonandi gaf ég félaginu eitthvað til baka því þarna er yndislegt að vera'
'Ég átti frábær tvö og hálft ár hjá ÍA og naut hverrar einustu mínútu. Vonandi gaf ég félaginu eitthvað til baka því þarna er yndislegt að vera'
Mynd: Fótbolti.net - Ingunn Hallgrímsdóttir
Nú taka við nýjar áskoranir hjá Fimleikafélaginu.
Nú taka við nýjar áskoranir hjá Fimleikafélaginu.
Mynd: FH
Hörður Ingi Gunnarsson er kominn heim í FH eftir tvö tímabil upp á Akranesi, þar af eitt í Pepsi Max-deild karla. Hann stefnir nú á að hjálpa uppeldisfélagi sínu að vinna að vinna titla.

Hörður Ingi er 21 árs og er í U21-landsliðinu. Hann leikur í stöðu bakvarðar og kom hann við sögu í 21 leik í Pepsi Max-deildinni í fyrra þegar ÍA hafnaði í tíunda sæti.

Félagaskiptin hafa átt langan aðdraganda en eru núna gengin í gegn þegar rúmar tvær vikur eru í að FH hefji leik í deild gegn fyrrum félögum Harðar í HK. „Aðdragandinn er jú búinn að vera talsvert langur og mikið verið fjallað um það," segir Hörður í samtali við Fótbolta.net. „Sumum fannst þetta orðið fullþreytandi umræða og sumt var ferlinu ekki til framdráttar. Heilt yfir voru samt flestir sem komu að málinu þannig innstilltir með það markmið að finna farsæla niðurstöðu."

Það hafði ýmislegt áhrif á þessi félagaskipti. „Rétt áður en kórónuveirufaraldurinn skall á virtist vera áhugi erlendis frá sem jók flækjustigið. Kórónuveiran einfaldaði ekki neitt, það drap ferlið algerlega og öll umræða um mögulega félagaskipti var sett upp á hillu. Á einum tímapunkti var ekki vitað hvort að fótbolti yrði yfirhöfuð spilaður á þessu ári. Þá var bara áfram gakk og allir uppteknir í að reyna að finna leiðir til að takast á við ástandið."

„Það var svo fyrir rúmum tveimur vikum að FH endurvakti málið. Þótt aðstæður væru krefjandi og stutt í mót þá lögðust allir sem komu að máli að reyna að finna góða niðurstöðu. Það gekk vel og er ég mjög þakklátur fyrir það," segir Hörður.

Kynntist fótboltasögunni á Akranesi
Hörður lék upp alla yngri flokka með FH-ingum. Hann hefur aldrei spilað í efstu deild með FH þrátt fyrir að hafa komist nokkrum sinnum á varamannabekkinn, þar á meðal árið 2014 þegar hann var á sextánda aldursári. Árið 2017 ákvað hann að söðla um og fór hann á láni til Ólafsvíkur.

„Tímabilið 2017 var ég hluti af fjórum liðum; FH, Víkingi Ó., HK og svo ÍA. Ég var á síðasta ári í 2. flokki FH og vildi komast í meiri áskorun og spila fullorðinsbolta. Ég fékk leyfi að fara á láni til Víkings Ó. og fór þar í skóla meistara Ejubs (Purisevic). Það skref var á þeim tímapunkti einfaldlega of stórt fyrir mig þó reynslan hafi verið frábær. Ég var bara ekki 100 prósent klár í hörkuna í Pepsi-deildinni þarna, en ég fékk margar verðmætar leikmínútur og kynntist yndislegu fólki í Ólafsvík. Í stað þess að halda áfram þar þá sá ég að ég þyrfti að gíra mig niður til að fjölga leikmínútum og kannaði ég því hvernig landið lá í Inkasso og 2. deild," segir Hörður sem spilaði sjö leiki í efstu deild með Ólsurum sumarið 2017.

Hann spilaði seinni hluta sumarsins með HK þar sem hann kynntist þjálfaranum Jóhannesi Karli Guðjónssyni. „Jói Kalli var að þjálfa HK og var með góða vini mína frá FH í sínum herbúðum; fljótlega kom sá valmöguleiki upp að fara þangað. Það var frábær tími og vann liðið tíu af ellefu leikjum í seinni umferðinni, en uppistaðan í því liði er kjarninn í HK í dag."

Jóhannes Karl tók við uppeldisfélagi sínu, ÍA, eftir sumarið 2017. Hann fékk Hörð Inga með sér upp á Akranes. „Hann var með það að markmiði að koma liðinu aftur í deild þeirra bestu. Eftir að hafa kynnt mér hans pælingar, leikmannahópinn, fólkið á bak við félagið og metnaðinn þá ákvað ég að slá til. ÍA er náttúrulega stórveldi í íslenskri knattspyrnu og það var frábært fyrir dreng úr Hafnarfirði að kynnast þeirri fótboltasögu sem er þar. Jói Kalli treysti mér fyrir hlutverki og fyrir það verð ég ævinlega þakklátur," segir Hörður.

„Ég átti frábær tvö og hálft ár hjá ÍA og naut hverrar einustu mínútu. Vonandi gaf ég félaginu eitthvað til baka því þarna er yndislegt að vera. Allt fólkið sem kemur að félaginu eru toppeintök og það svíður að sjá neikvæða gagnrýni um ÍA sbr. um fjármál félagsins. Það er vissulega erfitt núna og enginn að fela að reksturinn gekk illa. Fólk sem vill gagnrýna slíkt má ekki gleyma að huga að heildarmyndinni því það er líka margt jákvætt sem hefur gerst."

Rúlla upp og niður hægri vænginn
Nú er Hörður mættur aftur í Hafnarfjörðinn þar sem hann stefnir á að keyra upp hægri vænginn í sumar. Hann hefur jafnan leikið vinstri bakvörð með ÍA, en líður best í hægri bakverði.

„Markmið mitt hefur alltaf verið að spila fyrir meistaraflokk FH. Kaplakriki á góðum fótboltadegi er besti staður til að vera á. Ég er FH-ingur og eftir að hafa verið þar í gegnum alla yngri flokka þá ættu flestir að skilja þessa löngun. Tækifærið bauðst, það er mjög spennandi og ég tel það muni þroska mig meira sem leikmann og persónu. Það er vissulega óþægilega stutt í mót og það verður erfitt að sanna sig til að byrja með, en ég er ungur og í góðu formi og ég tel tímann vinna með mér er varðar það að vinna mér sæti í liðinu."

Fyrir FH-inga er orðið alltof langt síðan síðasti Íslandsmeistaratitill vannst. Það var árið 2016. Hörður segir markmiðin hjá Fimleikafélaginu vera skýr.

„FH vill alltaf berjast um titla og þetta skringilega ár er engin undantekning hvað það varðar. Það þarf ekkert að segja meira. Teymið er hungrað og það þolir ekki að tapa. Ef menn skilja allt eftir á vellinum þá eigum við sömu möguleika og aðrir í lok móts þegar stigin eru talin upp."

„Hvað mig sjálfan snertir þá mun ég fara extra míluna til að vinna mér sæti í liðinu óháð hvaða stöðu mér er ætlað að spila. Það er hins vegar engin launung að ég vil fá að rúlla upp og niður hægri vænginn; draumurinn er að ná að festa sig í sessi í þeirri stöðu. Ef framtíðin býður upp á tækifæri til að spila erlendis þá stefni ég þangað. Ef það tækifæri kemur ekki þá er ég meira en til í að spila sem FH-ingur það sem eftir lifir fótboltaferils eða á meðan minnar þjónustu er óskað þar," segir Hörður.

Höddi löpp
Hörður hefur stundum verið kallaður Höddi löpp, eins og fyrrum liðsfélagi hans í FH, Böðvar Böðvarsson. Höddi segir að Böddi eigi löppina og því óski hann eftir hugmyndum að nýju gælunafni.

„Vinur minn Böddi löpp á löppina. Ég er stoltur af viðurnefninu, en Böddi lætur mig alltof oft heyra það fyrir að deila þessu gælunafni með honum. Ég fagna hugmyndum að nýju gælunafni," segir Höddi, nýjasti leikmaður FH, léttur.

Hér að neðan má sjá skemmtilegt myndband sem FH gerði í tilefni af endurkomu Harðar.
View this post on Instagram

Home Sweet Home⚫️⚪️🤝

A post shared by Hörður Ingi Gunnarsson (@horduringi98) on


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner