Newcastle hefur áhuga á Jóni Degi - Brighton reynir við Summerville - Tilboði Tottenha í Toney hafnað
   þri 28. maí 2024 14:47
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Þessir tveir leikmenn líklega mestu atvinnumenn sem ég hef þjálfað"
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alfreð Finnbogason.
Alfreð Finnbogason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jonathan Hartmann, aðstoðarþjálfari Freys Alexanderssonar hjá Kortrijk í Belgíu, segir að Alfreð Finnbogason og Gylfi Þór Sigurðsson séu metnaðarfyllstu leikmenn sem hann hafi þjálfað.

Hartmann vann með Alfreð og Gylfa hjá Lyngby í Danmörku ásamt öðrum íslenskum leikmönnum. Hann hrósar þeim öllum í hástert í samtali við Fótbolta.net.

„Allir íslensku leikmennirnir sem ég hef þjálfað hafa verið gríðarlega miklir fagmenn og hugsað mikið um það að verða besta útgáfan af sjálfum sér. Það á við um ungu leikmennina (Andra Lucas Guðjohnsen, Kolbein Birgi Finnsson og Sævar Atla Magnússon) og líka um eldri leikmennina (Alfreð Finnbogason og Gylfa Þór Sigurðsson)," sagði Hartmann.

„Alfreð og Gylfi voru ótrúlega mikilvægir í að setja nýjar kröfur hjá félaginu varðandi það að vera íþróttamenn allan sólarhringinn. Þessir tveir leikmenn eru líklega mestu atvinnumenn, mest drífandi og metnaðarfyllstu leikmenn sem ég hef nokkurn tímann þjálfað. Það var magnað að sjá hversu metnaðarfullir þeir voru, jafnvel þó að þeir væru líklega hjá minnsta félaginu á sínum atvinnumannaferli. Þrátt fyrir að þeir hafi líklega aldrei spilað fyrir færri aðdáendur og aldrei í minni búningsklefum, þá voru þeir samt alveg rosalega metnaðarfullir og það smitaði út frá sér. Það kenndi mér mikið sem þjálfara."

Andri Lucas átti frábært tímabil með Lyngby og er líklega að ganga í raðir Gent í Belgíu. Freyr Alexandersson , þjálfari Kortrijk, og Hartmann þekkja Andra Lucas vel.

„Ef Andri Lucas kemur til Belgíu, þá verður það mjög skemmtilegt. Ég ætla að gera mitt besta til að hann skori ekki gegn okkur. Andri er mjög góður leikmaður og með mjög metnaðarfullan persónuleika. Ég held að hann muni eiga frábæran feril sama hvert hann fer," sagði Hartmann.
Athugasemdir
banner
banner