mán 28. september 2020 19:30
Aksentije Milisic
Carroll birtir hlægilega mynd þar sem hann samhryggist Tottenham
Mynd: Getty Images
Andy Carroll, leikmaður Newcastle United, setti inn færslu á Instagram eftir leik liðsins gegn Tottenham þar sem hann samhryggist félaginu. Hann vann vítaspyrnuna sem Newcastle fékk seint í uppbótartíma og því nældi liðið sér í eitt stig.

Margir eru æfir yfir dómnum og Steve Bruce, stjóri Newcastle, sagði sjálfur að VAR væri að eyðileggja ímynd ensku úrvalsdeildarinnar.

Carroll hefur gagnrýnt handarregluna en hann setti inn mynd af teiknimyndapersónu sem er að gera svokallað 'pencil jump' eða blýants hopp. Þar er kallinn að hoppa þar sem hendurnar vísa beint niður til jörðu og upp við líkama. Hann skrifar að þetta sé nýja reglan um hvernig menn skuli hoppa í skallabaráttu. Myndina hjá Carroll má sjá hér neðst í fréttinni.

Carroll skallaði knöttinn í hönd Eric Dier í uppbótartíma og eftir að dómari leiksins, Peter Bankes, fór að skoða atvikið á VAR skjánum góða þá ákvað hann að benda á punktinn. Callum Wilson fór á punktinn og skoraði.

Margir hafa gagnrýnt þessa reglu og hafa menn eins og Jamie Carragher, Gary Neville, Gary Lineker og fjölmargir aðrir, verið æfir á Twitter vegna málsins. Nokkur svona atvik hafa nú þegar átt sér stað í fyrstu umferðum ensku úrvalsdeildarinnar.




Athugasemdir
banner
banner
banner