Heiða Ragney Viðarsdóttir átti mjög góðan leik á miðjunni hjá Breiðabliki í dag, þegar þær grænklæddu fóru með 4-2 sigur af hólmi á FH konum. Heiða stýrði umferðinni vel og stöðvaði margar sóknir FH.
Lestu um leikinn: Breiðablik 4 - 2 FH
Hvað fer í gegnum hausinn á ykkur þegar þið lendið undir svona snemma?
„Það var bömmer, en ég hafði samt engar áhyggjur. Ég vissi að við værum að fara að skora, við erum að skora svo mikið. Ég var ekkert of stressuð með það, það var aðallega þegar seinna markið kom þá þurftum við að rífa okkur í gang.“
FH átti nokkrar fínar skyndisóknir í fyrri. Hverju breytið þið í hálfleik?
„Þær keyra svolítið hratt á lið og það er ringulreið í gangi á meðan þannig við ákváðum að droppa aðeins og stjórna þá aðeins leiknum. Við breyttum líka aðeins um leikkerfi. 4-3-3 með tvær djúpar þá var ekki að opnast svona mikið svæði á miðjunni sem þær voru að keyra inn í.“
Nokkrir kaflar í seinni hálfleik þar sem þið gátuð skorað fleiri mörk með því að stýra leiknum.
„Algjörlega. Það er líka það sem maður verður að gera á móti liðum sem keyra svona rosa hratt að aðeins að slaka á og taka stjórn á leiknum. Leyfa þeim ekki að stjórna tempóinu. Sem bara gekk, og þá breyttist alveg leikurinn og við tókum yfirhöndina.“
Úrslitaleikur næstu helgi. Hvernig er vikan?
„Það er bara venjuleg æfingavika sko, það verður ekkert öðruvísi. En ég er ógeðslega ánægð, þetta er ógeðslega spennandi að þetta verði úrslitaleikur og maður vonar bara að það mæti fullt af fólki á völlinn. Þannig ég er mjög spennt!“
Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.