David á blaði hjá Man Utd, Liverpool og Arsenal - Liverpool undirbýr tilboð í Tchouameni - Man Utd reynir aftur við Branthwaite
banner
   mán 28. október 2024 15:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Ef synir mínir verða eins og Birkir Már verð ég mjög glaður pabbi"
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Túfa.
Túfa.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valsmenn kvöddu Birki Má Sævarsson á laugardag þegar hann lék kveðjuleik sinn fyrir félagið. Birkir er að flytja til Svíþjóðar þar sem fjölskylda hans hefur búið undanfarið ár.

Birkir útilokar ekki að spila áfram í Svíþjóð, hann sé opinn fyrir því að spila ef eitthvað lið vill fá hann. Hann verður fertugur í næsta mánuði og kvaddi með því að bera fyrirliðabandið í leik sem Valur tryggði sér Evrópusæti.

Srdjan Tufegdzic, þjálfari Vals, ræddi við Fótbolta.net eftir leikinn og tjáði sig um Birki.

„Birkir Már sýnir öll þau gildi sem eiga að einkenna Val sem félag. Það eru forréttindi að þekkja Birki Má og hvað þá að þjálfa hann. Ef að mínir synir sem eru 12 og 14 ára verða eins og Birkir Már verð ég bara mjög glaður pabbi. Vont að missa hann en hann hefur bara verið goðsögn hérna á Hlíðarenda," sagði Túfa. Synir hans, Stefan og Novak, eru í yngri flokkum Vals.

Birkir lék 367 leiki með Val á árunum 2003-2008 og svo aftur 2018-2024. Í millitíðinni lék hann sem atvinnumaður hjá Brann og Hammarby. Hægri bakvörðurinn varð þrisvar sinnum Íslandsmeistari og einu sinni bikarmeistari. Hann lék 103 landsleiki og fór með liðinu á bæði EM og HM.
Athugasemdir
banner
banner
banner