Það var tilkynnt í gær að Pétur Pétursson yrði ekki áfram þjálfari kvennaliðs Vals.
Undir stjórn Péturs vann Valur fjóra Íslandsmeistaratitla og tvo bikarmeistaratitla en hann tók við liðinu árið 2017.
Undir stjórn Péturs vann Valur fjóra Íslandsmeistaratitla og tvo bikarmeistaratitla en hann tók við liðinu árið 2017.
„Pétur hefur náð stórkostlegum árangri með kvennaliðið okkar síðustu sjö ár og skapað margar góðar minningar sem við Valsfólk verðum honum ævinlega þakklát fyrir. Pétur hefur átt stórkostlegan feril sem þjálfari sem spannar hátt í þrjátíu ár og við vitum öll hvað hann gerði sem leikmaður," sagði í tilkynningu Vals.
„Það er klárt að Pétur er eitt af þessu stóru nöfnum þegar kemur að fótboltanum hér á landi. Hann er nú á leið í verðskuldað frí til Spánar og óska ég honum alls hins besta og hlakka til þess að fá hann í kaffi niður að Hlíðarenda og rífast við hann um fótbolta,“ segir Björn Steinar Jónsson sem kjörinn var formaður knattspyrnudeildar Vals fyrir skömmu.
En hver tekur við Val? Þetta er eitt af stóru störfunum í fótboltanum á Íslandi en við á Fótbolta.net höfum sett saman tíu manna lista yfir þjálfara sem gætu tekið starfið að sér.
Adda Baldursdóttir - Hefur verið aðstoðarþjálfari Péturs og þekkir vel til á Hlíðarenda. Var frábær leikmaður og mikill leiðtogi, en hún er spennandi þjálfari og væri gaman að sjá hana taka við stjórnartaumunum hjá Val.
Ágúst Gylfason - Hefur gert virkilega flotta hluti í karlaboltanum með Fjölni, Breiðablik og Stjörnuna. Afar fær þjálfari sem gæti komið inn með mikinn hressleika á Hlíðarenda.
Eiður Ben Eiríksson - Varð í gær Íslandsmeistari sem hluti af þjálfarateymi karlaliðs Breiðabliks. Var áður þjálfari kvennaliðs Vals ásamt Pétri og spurning hvort að hann sé tilbúinn að stökkva aftur þangað inn.
Elísabet Gunnarsdóttir - Líklega er hún draumakostur flestra Valsara. Gerði magnaða hluti með Val áður en hún stýrði Kristianstad í Svíþjóð í meira en tíu ár. Hefur núna verið án félags í dágóðan tíma en hún var meðal annars orðuð við Chelsea og Aston Villa á Englandi á dögunum. Ef Val nær að sannfæra hana um að koma heim, þá væri það risastórt.
Guðni Eiríksson - Hann og bróðir hans, Hlynur, hafa gert mjög svo skemmtilega hluti með FH síðustu árin. FH-liðið hefur spilað frábæran fótbolta og náð mjög góðum úrslitum. Hafa fest sig í sessi sem eitt sterkasta lið Bestu deildarinnar undir þeirra stjórn.
John Andrews - Hefur gert mjög svo eftirtektarverða hluti með Víking. Liðið varð bikarmeistari undir hans stjórn á meðan það var enn í Lengjudeildinni. Svo endaði það í þriðja sæti á sínu fyrsta tímabili í Bestu deildinni.
Kristján Guðmundsson - Hætti með Stjörnuna síðasta sumar eftir að hafa náð að byggja upp hörkulið þar. Þjálfari með gríðarlega reynslu sem gæti passað vel inn í metnaðarfullt umhverfi á Hlíðarenda.
Margrét Magnúsdóttir - Þjálfari sem hefur gert mjög flotta hluti með yngri landslið Íslands. Undir hennar stjórn fór U19 landslið kvenna á lokamót EM. Margrét er með sterka tengingu við Val eftir að hafa þjálfað þar yngri flokka við góðan orðstír.
Matthías Guðmundsson - Annar fyrrum aðstoðarmaður Pétur sem er núna að gera góða hluti annars staðar. Var að klára sitt fyrsta tímabil sem aðalþjálfari Gróttu og var hársbreidd frá því að fara með það unga lið upp í Bestu deildina.
Athugasemdir