Bruno Fernandes haltraði af velli eftir leik Manchester United gegn Nottingham Forest í enska bikarnum í gær.
Erik ten Hag stjóri Man Utd var allt annað en sáttur með framkomu leikmanna Forest í garð Fernandes en Ten Hag sagði að portúgalski miðjumaðurinn hafi verið að spila tæpur eftir að hafa meiðst gegn Fulham um síðustu helgi.
„Þú sást að hann var skotmark hjá Forest svo ég vil ekki segja hvað er að hrjá hann en þetta er slæmt," sagði Ten Hag.
„Það var oft brotið á honum. Kannski er ég of harður en þegar hann var með boltann voru þeir mjög ákafir á hann. Svo sé ég að fjölmiðlar gagnrýna hann og samfélagsmiðlar eru ömurlegir.
„Hann varð fyrir slæmum meiðslum á laugardaginn en hélt áfram að spila og hann barðist líka hluta úr leiknum í dag (gær) en hann er með háan sársaukaþröskuld. Það var svipað upp á teningnum í fyrra gegn Spurs en það sýnir leiðtogahæfileikana hans og karakter og það er gott þegar þú ert leiðtogi," sagði Ten Hag að lokum.
Manchester United mætir Liverpool í 8 liða úrslitum keppninnar á Old Trafford en liðið heimsækir Manchester City næstkomandi sunnudag.