Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   sun 29. mars 2020 14:58
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Real Madrid stjórnar ferðinni í Brasilíu, en hvernig?
Vinicius skoraði í El Clasico fyrr í þessum mánuði.
Vinicius skoraði í El Clasico fyrr í þessum mánuði.
Mynd: Getty Images
Rodrygo með Roberto Carlos, goðsögn hjá Real Madrid, eftir að hafa skrifað undir samning sinn.
Rodrygo með Roberto Carlos, goðsögn hjá Real Madrid, eftir að hafa skrifað undir samning sinn.
Mynd: Getty Images
Reinier kom til Madrídar í janúar.
Reinier kom til Madrídar í janúar.
Mynd: Getty Images
Real missti af Neymar og það var eitthvað sem mátti ekki endurtaka sig.
Real missti af Neymar og það var eitthvað sem mátti ekki endurtaka sig.
Mynd: Getty Images
Þegar Neymar var 13 ára gamall þá heimsótti hann Real Madrid. Hann fór með föður sínum til Spánar árið 2005. Þeir voru í þrjár vikur á flottu hóteli á meðan Neymar æfði með stórveldinu frá spænsku höfuðborginni. Hann hitti stórstjörnur á borð við Ronaldo (þann brasilíska) og Zinedine Zidane. Á kvöldi hitti borðaði hann með Robinho.

Real reyndi ítrekað að fá Neymar, en hann ákvað að vera áfram heima í Santos. Þegar hann söðlaði svo um þá valdi hann Barcelona fram yfir Madríd. Það var þungt högg, og var það högg sem gerði Florentino Perez, forseta Real, alveg brjálaðan. Hann valdi ekki bara að fara ekki til Real, hann valdi helstu erkifjendur Los Blancos í Barcelona.

Það er högg sem Real Madrid finnur enn þann dag í dag fyrir þrátt fyrir að Neymar muni kannski í framtíðinni leika fyrir Real Madrid - hver veit?

Real ætlar sér að bæta fyrir að hafa misst af Neymar og á þremur árum hefur félagið eytt miklum fjárhæðum, samanlagt um 130 milljónir evra, í að fá þrjá af efnilegstu Brössunum: Vinicius Junior, Rodrygo og Reinier. Allir sömdu þeir við Real Madrid fyrir 18 ára afmælisdag sinn þrátt fyrir mikinn áhuga frá öðrum stórum félögum í Evrópu. Real er staðráðið í að finna næsta Neymar.

The Athletic fjallar um það að einn ákveðinn maður sé að hjálpa Real Madrid að sannfæra þessa ungu og efnilegu leikmenn að taka stökkið til Madrídar. Sá maður heitir Jose Antonio Calafat de Souza. Allir kalla hann bara Juni.

Hann talar ekki við fjölmiðla og starfar mikið á bak við tjöldin. Hann er yfir alþjóðlegum leikmannamálum Real Madrid, en þrátt fyrir það er nafn hans ekki einu sinni á vefsíðu félagsins.

Juni byrjaði að vinna sem fjölmiðlamaður og vann hann sem leikgreinandi í sjónvarpsþættinum Fiebre Maldini. Hann er með mikla þekkingu á leiknum í Suður-Ameríku og það varð til þess að hann fékk stöðu njósnara hjá Real. Á meðal fyrstu leikmanna sem hann mælti með var miðjumaðurinn Casemiro, sem er mikilvægur hluti af liði Real Madrid í dag. Ekki hafa allir leikmennirnir sem hann hefur mælt með slegið í gegn, en hann er með gott auga fyrir hæfileikum. Fede Valverde, sem hefur komið sterkur inn á miðsvæði Real á þessu tímabili, er einn af hans leikmönnum.

Brasilía er hans aðalsvæði. Hann er með gott auga fyrir leikmönnum, en það sem aðskilur hann frá öðrum er það hvernig hann tengist leikmönnum sterkum böndum. „Öll stóru félögin eru með menn í vinnu í Brasilíu, en Juni gerir gæfumuninn," segir Nick Arcuri, umboðsmaður Rodrygo.

Juni skilur það að foreldrar vilja fá að vita að barnið sitt muni spila og fá tækifæri; að peningar séu mikilvægir en ekki allt; að fara til Evrópu sé rosaleg breyting. Sautján ára strákur hugsar kannski ekki um allt þetta og því þarf að huga sérstaklega að fjölskyldum og umboðsmönnum.

„Það er mikilvægt að mynda sambönd við fjölskyldur og umboðsmenn," segir Jeff Vetere, fyrrum njósnari hjá Real Madrid. „Það er sérstaklega satt í Brasilíu þar sem 90% leikmanna lifa við fátækt. Við erum að tala um að breyta lífum þeirra."

Juni vinnur svo sannarlega fyrir kaupinu sínu. Hvað varðar Vinicius, sem var fyrstur af þremenningunum til Real, þá fundaði Juni í 14 mánuði með leikmanninum og aðstandendum hans áður en samkomulag náðist. Vinicius var keyptur frá Flamengo, en Rodrigo Caetano, yfirmaður knattspyrnumála hjá brasilíska félaginu, heillaðist af vinnubrögðum Juni.

„Ég var mjög hrifinn af því hversu mikið hann vissi um Vinicius og fjölskyldu hans. Hann vissi um allt fólkið í kringum Vinicius og hvernig það hugsaði. Svo byrjaði hann samræður við félagið og umboðsmann leikmannsins. Þetta var náið samband og það varð til þess að leikmaðurinn trúði á verkefnið. Það varð til þess að hann fór til Real Madrid."

Hvað varðar Rodrygo, sem var keyptur frá Santos ári síðar, þá hafði Juni verið að fylgjast með honum í fjögur ár eða frá því Rodrygo var 13 ára gamall.

Starf Juni er að selja Real Madrid sem fullkominn stað fyrir leikmann til að ná árangri á sínum ferli. Fyrir suma þýðir það að byrja í Castilla, varaliði Real Madrid. En fyrir leikmenn eins og Casemiro og Vinicius þá var það ekki langur tími, leiðin er greið í aðalliðið ef leikmaðurinn er nægilega góður. Rodrygo, sem er 19 ára, hefur á þessu tímabili spilað 18 leiki með aðalliðinu og skorað sjö mörk.

„Þeir gáfu Rodrygo allt sem honum dreymdi um," segir Nick Arcuri, umboðsmaður Rodrygo. „Paris Saint-Germain, Borussia Dortmund og Barcelona vildu líka fá hann, en Real gaf okkur plan fyrir, bæði stutt plan og langtímaplan."

Reinier, nýjasti Brasilíumaðurinn í herbúðum Real Madrid, kom til félagsins í janúar eftir 18 ára afmælisdag sinn. Juni hafði verið að tala við fjölskyldu hans í þrjú ár og byrjaði það allt sem þegar hann var að vinna í því að fá Vinicius til Real. Juni þekkir markaðinn í Suður-Ameríku gríðarlega vel og er með mörg góð sambönd á svæðinu.

Markaðurinn í Brasilíu er að stigmagnast og stærstu félög Evrópu vinna nú að því að fá leikmenn sem eru 16 eða 17 ára, ekki 20 eða 21 árs. Félög eins og Manchester City og Barcelona eru með öfluga menn í vinnu við að fylgjast með ungum og efnilegum leikmenn í Brasilíu. Að hafa stór nöfn eins Leonardo (PSG) og Juninho (Lyon) skiptir miklu máli, en að sinna vinnu sinni eins vel og Juni gerir, það skiptir ef eitthvað er meiru máli.

Úrslitin segja sína sögu. Real Madrid keypti mest spennandi framherja Brasilíu árið 2017. Ári síðar gerðu þeir það aftur, og svo aftur 18 mánuðum síðar.

Það verður að bíða og sjá hvort Vinicius, Rodrygo og Reinier geti komist á sama stall og Neymar en maður Real Madrid í Brasilíu er búinn að koma félaginu í stöðu til að komast að því.

Grein The Athletic má lesa hérna.
Athugasemdir
banner
banner
banner