KA hefur átt erfitt uppdráttar í sumar en liðið hefur aðeins unnið tvo af síðustu átta leikjum.
Liðið tapaði í gær í Eyjum gegn ÍBV. Gummi Ben, Lárus Orri Sigurðsson og Albert Brynjar Ingason ræddu vandamál KA á tímabilinu í Stúkunni í kvöld.
Það vakti athygli að Pætur Petersen, Harley Willard og Þorri Mar Þórisson voru ekki í leikmannahópi liðsins. Lárus Orri hafði heimildir fyrir því að þeir hafi verið í agabanni.
„Þeir brutu reglur, þeir ferðuðust ekki eins og átti að ferðast úr leiknum á móti KR samkvæmt mínum heimildum fyrir norðan og brutu þar með reglu og voru ekki í hóp útaf því," sagði Lárus Orri.
„Þeir hljóta að hafa verið eftir, fóru á Auto, agabann," sagði Albert Brynjar léttur.
KA fór inn í mótið með miklar væntingar en liðið hefur ekki náð að standa undir þeim. Liðið er í 6. sæti deildarinnar en getur fallið niður í 9. sæti vinni HK, Stjarnan og Fram leiki sem þau lið eiga inni. KA hafnaði í 2. sæti síðasta sumar.
„Væntingarnar voru miklar og hvernig dæmum við KA liðið? Eigum við að dæma út frá liði sem ætti að vera um miðja deild eða eigum við að horfa á lið sem ætlaði sér og á að vera í toppbaráttu?" Sagði Lárus Orri.
„Spilamennskan hjá liðinu, spilamennskan hjá einstaklingum og liðstyrkurinn sem kom er mikið flopp það sem af er tímabili."
Albert Brynjar benti á að KA var með besta útivallarárangurinn á síðustu leiktíð, aðeins tveir tapleikir en hafa tapað fimm af sex útileikjum í sumar.
„Við höfum gagnrýnt það að þjálfarinn setji út á að það sé verið að spá liðinu öðru en titilbaráttu. Hvaðan kemur það, er það hans pælingar eða innan félagsins? Ef það er innan félagsins að markmiðið væri að berjast um titilinn þá hlýtur hann að sitja í virkilega heitu sæti," sagði Albert.
Albert og Lárus gagnrýndu nokkra leikmenn liðsins fyrir frammistöðu sína í sumar. Þar á meðal Hallgrím Mar Steingrímsson, Ívar Árnason og Rodri.
„Við hældum honum (Rodri) mikið í fyrra sem einn af bestu ef ekki besti miðjumaður deildarinnar. Ef þú horfir á hann í dag þá er eins og hann vilji ekki vera þarna, eins og þetta sé einhver kvöð," sagði Lárus.