Michael Newberry, fyrrum varnarmaður Víkings Ólafsvíkur, var nýverið í viðtali við Belfast Live þar sem hann ræddi um dvölina á Íslandi.
Newberry sem er 23 ára gamall gekk til liðs við Víking Ó. frá Newcastle United árið 2018 og spilaði þrjú tímabil með liðinu.
Hann lék í heildina 65 fyrir Ólafsvíkinga en yfirgaf liðið eftir síðustu leiktíð og fór til Linfield, sem er eitt sterkasta liðið í heimalandi hans - Norður-Írlandi.
„Ég skal ekki ljúga, ég hataði fyrstu mánuðina þarna," sagði Newberry um dvölina á Íslandi.
„Veturnir á Íslandi eru erfiðir og þú ert í snjó upp að hnjám. Það var hræðilegt. Þú varst fastur inni út af kuldanum. En það var ótrúlegt að vera þarna á sumrin. Það er mjög fallegt á Íslandi á sumrin og veðrið er mjög fínt."
„Fótboltalega séð, þá var Ísland gott fyrir mig vegna þess að ég spilaði mikið og fékk mikla reynslu af því að spila öðruvísi fótbolta. Samt sem áður, þá var þetta skref til baka fyrir mig því það eru ekki margir í Bretlandi sem fylgjast með íslenska boltanum. Ég hélt ég myndi spila út ferilinn á Íslandi en svo kom Linfield inn í myndina og ég er hæstánægður með það."
Newberry vann með þjálfurum Linfield í yngri landsliðum Norður-Írlands og það spilaði þátt í því að hann fór þangað.
Þess má geta að Newberry og félagar mæta Borac Banja Luka frá Bosníu og Hersegóvínu í Sambandsdeildinni í kvöld. Fyrri leikur liðanna á Norður-Írlandi endaði með 4-0 sigri Linfield.
Athugasemdir