Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fös 29. júlí 2022 16:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Þrír af fjórum þjálfurum reknir eftir að hafa mætt í Fossvoginn
Milos Milojevic.
Milos Milojevic.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er athyglisvert að rýna í það hvað félög eru gjörn í að reka þjálfara sinn eftir að hafa mætt Víkingum í Evrópukeppni á þessu tímabili.

Af þeim fjórum liðum sem Víkingur hefur mætt í Evrópukeppni í ár, þá er aðeins eitt þeirra sem er ekki búið að reka þjálfarann eftir að hafa mætt í Fossvoginn.

Levadia Tallinn rak þjálfarann Vladimir Vassiljev eftir 1-6 tap gegn Víkingi í forkeppni Meistaradeildarinnar.

Velska félagið The New Saints lét stjórann Anthony Limbrick fara eftir tapið gegn Íslandsmeisturum Víkings í forkeppni Sambansdeildarinnar og nú síðast var Milos Milojevic, sem er fyrrum þjálfari Víkinga, látinn fara frá Malmö.

Malmö, sem er sigursælasta félagið í Svíþjóð, tókst að leggja Víkinga að velli í forkeppni Meistaradeildarinnar en það var afskaplega ósannfærandi.

Eini þjálfarinn sem hefur haldið starfi sínu eftir að hafa mætt í Fossvoginn er Raul Obiols Rodríguez, þjálfari Inter Escaldes frá Andorra.

Næst mætir Lech Poznan frá Póllandi hingað til lands til að mæta Víkingum. Þar er Hollendingurinn John van den Brom nýbúinn að taka við og hann ætti því að fá smá slaka.
Athugasemdir
banner
banner