Napoli í viðræðum um Garnacho - Villa hafnaði tilboði West Ham í Duran - Vlahovic orðaður við Chelsea
   fim 29. ágúst 2024 18:00
Hafliði Breiðfjörð
Laugardalsvöllur mögulega ekki klár fyrir Víkinga og leitað lausna með heimavöll
KSÍ vill skipta um undirlag á Laugardalsvelli.
KSÍ vill skipta um undirlag á Laugardalsvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kópavogsvöllur.
Kópavogsvöllur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lambhagavöllurinn í Úlfarsárdal.
Lambhagavöllurinn í Úlfarsárdal.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jörundur Áki Sveinsson starfandi framkvæmdastjóri KSÍ skoðar aðstæður á Víkingsvelli.
Jörundur Áki Sveinsson starfandi framkvæmdastjóri KSÍ skoðar aðstæður á Víkingsvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Enn er óljóst hvar Víkingur mun spila heimaleiki sína í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar en leikið verður frá byrjun október til jóla. Líklega verður ekki hægt að spila á Laugardalsvelli og samkvæmt heimildum Fótbolta.net hefur mest verið horft í tvo kosti fyrir heimaleiki Víkinga, heimavöll Breiðabliks í Kópavogi og heimavöll Fram í Úlfarsárdalnum.

Dregið verður í hádeginu á morgun í Sambandsdeildina og þá verður ljóst hvaða sex andstæðingum Víkingar mæta. Þeir spila þrjá leiki heima og þrjá úti.

Nýtt undirlag sett á Laugardalsvöll í október?
Fyrirhugaðar eru framkvæmdir á Laugardalsvelli í haust þar sem skipta á um undirlag og ef af þeim verður er ljóst að ekki verður möguleiki fyrir Víkinga að spila leiki sína þar. Ísland leikur gegn Wals og Tyrklandi í Þjóðadeildinni 11. og 14. október og í kjölfarið ætlaði KSÍ að fara í framkvæmdir.

„Ef það verður farið í framkvæmdir á Laugardalsvelli þá verður það gert eftir landsleikina," sagði Jörundur Áki Sveinsson starfandi framkvæmdastjóri KSÍ við Fótbolta.net

„Planið er að ef farið verði í framkvæmdir að settar verði hitalangir undir völlinn og hybrid gras. Við munum samt styðja Víkinga fyrst í þeirra verkefni og finna lausnir með þeim og UEFA," bætti hann við. Hann sagði ekki enn ljóst hvernig slíkar framkvæmdir yrðu fjármagnaðar en von væri á tíðindum í þeim málum. Framkvæmdum yrði þó seinkað ef niðurstaðan verður að Víkingar verði að spila heimaleiki sína á Laugardalsvelli.

Von á skýrslu frá UEFA eftir að nokkrir vellir voru skoðaðir
Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA sendi nú í ágúst fulltrúa hingað til lands og teymi manna hefur farið á milli valla þar sem teknar eru út aðstæður. Þar á meðal eru Kópavogsvöllur og Lambhagavöllurinn í Úlfarsárdal auk heimavallar Víkinga í Fossvoginum sem þykir ólíklegur kostur. Von er á skýrslu frá UEFA um kostina í stöðunni sem KSÍ fær senda á næstu dögum.

„Þetta er í gaumgæfulegri skoðun hjá okkur ásamt UEFA. Við munum skoða þetta og meta í næstu viku þegar við höfum fengið skýrsluna frá UEFA," sagði Jörundur Áki. „Þá verður sest yfir það og tekin ákvörðun. Það koma svo fleiri fulltrúar frá UEFA til Íslands í næstu viku og verða á leikjum U21 landsliðsins í Víkinni og A-landsleikjum á Laugardalsvelli. Við viljum finna leiðir og lausnir þannig að allir verði sáttir."

Nokkuð ljóst er að ekki verður hægt að spila á Laugaralsvelli á leikdögunum 12. eða 19. desember sem ýtir enn meira undir að fundin verði önnur lausn.

Ýmislegt þarf að hafa í huga, erlendu liðunum gæti fylgt stór hópur stuðningsmanna sem þarf að aðskilja í stúkunni, flóðljós þurfa að standast kröfur UEFA, aðstaða fjölmiðla og ýmislegt fleira.

„Við höfum fengið jákvætt samtal við UEFA um þessi mál og það er stórt atriði í þessu að ekki er hægt að spila á Laugardalsvelli í desember. Það þarf að uppfylla allskonar skilyrði og UEFA veit að þetta verður mjög erfitt en það eru allir að vilja gerðir að finna lausnir," sagði Jörundur Áki að lokum.

Leikdagarnir í Sambandsdeildinni
3. október
24. október
7. nóvember
28. nóvember
12. desember
19. desember
Athugasemdir
banner
banner
banner