Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   fim 29. september 2022 15:00
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Slaufun í boði ÍSÍ, KSÍ og ráðherra
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Að starfa fyrir íþróttafélag sem sjálfboðaliði er alla jafna gefandi og skemmtilegt. Það hef ég gert síðustu rúmlega 30 árin fyrir mitt litla félag í litlu samfélagi þar sem ég hef gegnt hinum ýmsu trúnaðarstörfum í gegnum tíðina, allt frá formanni félagsins, starfi gjaldkera, meðstjórnanda eða einfaldlega sem starfsmaður á plani. 


Nú síðast starfaði ég sem formaður knattspyrnudeildar, meðstjórnandi í aðalstjórn og fulltrúi míns félags í íþróttabandalagi viðkomandi íþróttasvæðis. Ég hef haft mikla trú á gildi íþrótta-, og félags- og sjálfboðaliðastarfs og séð með eigin augum forvarnargildið sem íþróttirnar sannarlega eru.

Þau eru ýmisleg málin sem íþróttafélög, stór sem smá, sem drifin eru áfram af sjálfboðaliðum þurfa að fást við. Áskoranirnar eru af af öllum stærðum og gerðum. Dæmi um það er mál sem kom inn á borð míns félags og leitað hefur á hugann og ég hef þörf fyrir að tjá mig um opinberlega.

Fyrir fimm árum síðan kom það í minn hlut að semja við leikmann um að leika fyrir mitt félag. Mér leist vel á leikmanninn. Hann kom vel fyrir, drakk ekki áfengi, notaði ekki tóbak, var góður í fótbolta og vildi ganga til liðs við félagið og leggja sitt af mörkunum. En hann tók það skýrt fram að hann hefði verið dæmdur fyrir kynferðisbrot, nánar tiltekið fyrir ósæmileg skilaboð og snertingu á rassi utan klæða. Hann áttaði sig á því að hann hafði gert slæm mistök, undi dómnum, tók út sína refsingu og reyndi að halda áfram með lífið. Leikmaðurinn kom heiðarlega fram strax frá byrjun. Félagið samdi við leikmanninn og hefur það samstarf verið farsælt fyrir báða aðila.

En svo bar við að fyrir ári síðan þá hafði samband við félagið svokallaður Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs sem heyrir undir málasvið mennta- og menningarráðuneytis samkvæmt lögum, með KSÍ og ÍSÍ í bakhöndinni. Erindið var að benda okkur á að við yrðum að rifta samningi við þennan leikmann og láta hann fara undir eins frá félaginu þar sem við værum með barnastarf. Þetta kom sem sagt inn á borð félagsins mörgum árum eftir að viðkomandi leikmaður hafði brotið af sér en í millitíðinni hafði leikmaðurinn einbeitt sér að því vera góð fyrirmynd og góður og gegn þjóðfélagsþegn, fordæmt fyrri hegðun sína, tekið út sinn dóm og stofnað fjölskyldu en samkvæmt Samskiptaráðgjafa ríkisins var leikmaðurinn enn álitinn hættulegur og nú skyldi refsa honum aftur. Hann skyldi ekki fá að spila fótbolta, ekki fá tækifæri til þess að tala gegn þeim mistökum sem hann gerði og ekki fá tækifæri til þess að vera besta útgáfan af sjálfum sér, honum skyldi slaufað.

En af hverju er ég að setjast niður og skrifa þetta núna? Jú, af því að þetta snertir mig og mér finnst sárt að sjá hvernig Samskiptaráðgjafi ríkisins ætlar að slaufa leikmanninum með fyrrgreindum hætti. Sjálfur gerði ég líka mistök, sjálfur er ég með dóm á bakinu, dóm fyrir manndráp af gáleysi. Ég er búinn að fara í gegnum dómskerfið, ég er búinn að taka út minn dóm, búinn að takast á við sorgina, kvíðann og áfallastreituna sem aldrei er langt undan. Ég er enn að reyna að halda áfram og reyna að vera besta útgáfan af sjálfum mér. En í mér býr ótti, ég óttast að dag einn verði mér slaufað, að ráðherra láti undan þrýstihópum og setji í starfslýsingu Samskiptaráðgjafa að elta mig uppi og slaufa mér af því að ég sé hættulegur ákveðnum hópi fólks og að í mér hljóti að búa einbeittur brotavilji og því sé rétt að refsa mér aftur.

Í sjálfboðaliðastarfinu fyrir mitt ástkæra félag þarf að sinna ýmsum verkefnum af öllum stærðum og gerðum. Ég hef t.d. verið í samskiptum við einstaklinga, önnur félög, fyrirtæki, stofnanir og svo áðurnefndan Samskiptaráðgjafa ríkisins. Miðað við að bera titilinn Samskiptaráðgjafi þá er mín reynsla sú að í nafninu felast hálfgerð öfugmæli. Mín upplifun var sú að samskiptin af hálfu Samskiptaráðgjafans væru vond því þau einkenndust af hroka og virðingarleysi gagnvart félaginu. Hvað varðar ÍSÍ og KSÍ sem kvitta uppá þessar aðferðir og eltingaleik í nafni laganna þá vil ég segja þetta: Beygið af leið refsistefnunnar og slaufunnar, hafið þið trú á einstaklingnum, hafið trú á að fólk vilji bæta fyrir misgjörðir sínar og eigi skilið annað tækifæri. Íþróttir eru fyrir alla, líka fyrir þá sem hafa gert mistök.

Ég hef sjaldan verið stoltari af mínu félagi en ég er í dag og sérlega ánægjulegt að líta um öxl og sjá hverju það hefur áorkað. En ég hef líka áttað mig á því að hvað þetta mál varðar að ég á enga samleið lengur með ÍSÍ, KSÍ og ráðneyti íþróttamála. Ég vil ekki starfa áfram sem sjálfboðaliði fyrir sjálfboðaliðahreyfingu sem starfar á þennan hátt og leggur áherslu á slaufunarmenningu. Þess vegna hef því sagt mig frá öllum trúnaðarstörfum fyrir mitt ástkæra félag og stíg inn í skuggann.

Gunnar J. Helgason
Fyrrum sjálfboðaliði.


Athugasemdir
banner
banner