Það fóru fjórir leikir fram í efstu deild í Sádí-Arabiíu í dag þar sem ýmsar stórstjörnur mættu til leiks.
Það vekur athygli að ríkjandi meistarar Al-Ittihad gerðu markalaust jafntefli við Al-Feiha, þar sem N'Golo Kante og Fabinho voru í byrjunarliði Ittihad sem leikur undir stjórn Nuno Espirito Santo. Karim Benzema var ekki með í hóp vegna meiðsla.
Brasilíumaðurinn Neymar var þá í byrjunarliði Al-Hilal og klúðraði vítaspyrnu í fyrri hálfleik. Al-Hilal var talsvert sterkari aðilinn en átti í erfiðleikum með að setja boltann í netið þar til Kalidou Koulibaly skoraði með skalla eftir hornspyrnu frá fyrrnefndum Neymar.
Ruben Neves, Sergej Milinkovic-Savic og Malcom voru einnig í byrjunarliði Al-Hilal, en það var Aleksandar Mitrovic sem innsiglaði sigurinn á 76. mínútu.
Al-Hilal vann gegn Al-Shabab, félaginu sem Yannick Carrasco, Romain Saiss, Ever Banega og Habibou Diallo eru á mála hjá.
Að lokum er komið að Al-Nassr, þar sem Cristiano Ronaldo afgreiddi al-Taee með marki og stoðsendingu. Ronaldo lagði upp fyrir Anderson Talisca í fyrri hálfleik og gerði svo sigurmark Al-Nassr með marki úr vítaspyrnu undir lokin.
Al-Hilal er á toppi sádí-arabísku deildarinnar með 20 stig eftir 8 umferðir. Al-Ittihad fylgir fast á eftir með 19 stig og er Al-Nassr með 18 stig.
Al-Taawoun deilir öðru sætinu með Al-Ittihad eftir sigur gegn Al-Hazem. Musa Barrow, fyrrum leikmaður Bologna á Ítalíu, hefur verið feykiöflugur á upphafi tímabils.
Al-Feiha 0 - 0 Al-Ittihad
Al-Hilal 2 - 0 Al-Shabab
0-0 Neymar, misnotað víti ('37)
1-0 Kalidou Koulibaly ('68)
2-0 Aleksandar Mitrovic ('76)
Al-Taee 1 - 2 Al-Nassr
0-1 Anderson Talisca ('32)
1-1 Virgil Misidjan ('79)
1-2 Cristiano Ronaldo ('87, víti)
Al-Hazem 1 - 3 Al-Taawoun