Maguire gæti elt McTominay til Napoli - Kolo Muani horfir til Englands - Nkunku vill fara frá Chelsea
   þri 30. janúar 2018 15:20
Elvar Geir Magnússon
Loic Ondo í Aftureldingu (Staðfest)
Loic Ondo.
Loic Ondo.
Mynd: Fótbolti.net - Hanna Símonardóttir
Eiður Ívarsson og Arnar Hallsson þjálfari Aftureldingar.
Eiður Ívarsson og Arnar Hallsson þjálfari Aftureldingar.
Mynd: Afturelding
Afturelding hefur fengið varnarmanninn Loic Ondo til liðs við sig fyrir átökin í 2. deildinni í sumar.

Hinn 27 ára gamli Ondo kom fyrst til Íslands árið 2010 þegar hann spilaði með Grindavík í Pepsi-deildinni. Hann hefur síðan þá spilað samfleytt á Íslandi.

Ondo lék einnig með Grindavík í Pepsi-deildinni 2012 en annars hefur hann mest leikið í næstefstu deild með BÍ/Bolungarvík og Fjarðabyggð.

Síðastliðið sumar spilaði Ondo fyrri hluta tímabils með Fjarðabyggð í 2. deildinni en síðari hlutann með Gróttu í Inkasso-deildinni.

Í fyrra var Ondo valinn í landslið Gabon en þar var hann meðal annars í hóp með framherjanum Pierre-Emerick Aubameyang sem er á leið til Arsenal.

„Afturelding fagnar því að fá þennan öfluga varnarmann til liðs við sig. Ondo hefur æft með Aftureldingu undafarnar vikur og staðið sig mjög vel. Reynsla hans á eftir að hjálpa liðinu í baráttunni sem er framundan í sumar," segir í fréttatilkynningu frá Aftureldingu.

Þá hefur markvörðurinn Eiður Ívarsson framlengt samning sinn við Aftureldingu um tvö ár. Eiður er uppalinn hjá Aftureldingu en hann varði mark liðsins í 2. deildinni í fyrra.

„Það er gleðiefni að Eiður ætli að taka slaginn áfram með Aftureldingu. Hann er ungur markvörður sem á framtíðina fyrir sér," segir í fréttatilkynningu frá Aftureldingu.
Athugasemdir
banner
banner