,,Baráttustigin eru ekkert síðri en að spila einhvern brasilískan bolta. Ég tek þessi þrjú stig í dag fagnandi með mér heim," sagði Páll Viðar Gíslason þjálfari Þórs eftir 3-1 sigur liðsins á Keflavík í kvöld.
Lestu um leikinn: Keflavík 1 - 3 Þór
Vörn Þórs var gagnrýnd talsvert eftir að liðið fékk á sig tuttugu mörk í fyrstu sjö leikjunum en Páll talaði meðal annars um það eftir 4-1 tap gegn Fram að hann væri sjálfur ekki nógu klókur í varnarfræðum. Varnarleikurinn hefur aftur á móti verið betri í síðustu tveimur leikjum.
,,Það skilar sér þegar menn leggjast á eitt og berjast fyrir hvorn annan. Ef menn leggja á sig þá þarf þjálfarinn ekkert að vera rosalega klár í varnarfræðum," sagði Páll sem var brjálaður þegar Keflvíkingar klóruðu í bakkann í viðbótartíma.
,,Ég er búinn að vera með þetta á heilanum í 2-3 vikur og gefst ekki upp fyrr en við höldum markinu okkar hreinu. Ef við ætlum að ná í einhverja punkta þá verðum við að halda hreinu. Þess vegna var ég mjög ósáttur að fá á okkur þetta mark."
Joshua Wicks, markvörður Þórs, fór meiddur af velli í dag og verður væntanlega ekki með gegn ÍA á miðvikudag en Srdjan Rajkovic tók stöðu hans.
,,Þetta er sama og hann var að glíma við fyirr síðasta leik. Ég er með tvo mjög góða markverði. Þeir eru ólíkir en báðir frábærir og ég sef alveg yfir markmannsmálunum."
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.
Athugasemdir