Liverpool veit verðið á Kerkez - City vill Saliba og Reijnders - Saka í viðræður um nýjan samning
   mán 31. mars 2025 12:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Það besta á þessari öld sem nýliðar í deildinni"
Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA.
Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Skagamönnum er spáð sjötta sæti.
Skagamönnum er spáð sjötta sæti.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Viktor Jónsson og Oliver Stefánsson, leikmenn ÍA.
Viktor Jónsson og Oliver Stefánsson, leikmenn ÍA.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Þór er spenntur fyrir komandi fótboltasumri.
Jón Þór er spenntur fyrir komandi fótboltasumri.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Mér líst mjög vel á það. Það er fyrsta markmið okkar að komast í efri hluta deildarinnar eftir tvískiptingu. Þegar það er tryggt þá er klárlega markmið okkar að horfa ofar í töfluna en ekki fyrr," segir Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, er hann er spurður út í spá Fótbolta.net fyrir Bestu deildina.

Skagamönnum er spáð sjötta sæti deildarinnar, en ef það rætist þá verður ÍA síðasta liðið inn í efri helming deildarinnar við skiptingu.

„Þetta undirbúningstímabil hefur verið nokkuð frábrugðið undirbúningstímabilinu í fyrra að því leyti að við höfum ekki spilað jafnmarga leiki sem skipta einhverju máli keppnislega. Í fyrra fórum við alla leið í úrslitaleiki í öllum mótum sem við tókum þátt í og vorum því allt undirbúningstímabilið í fyrra að spila keppnisleiki með eitthvað undir. Það hefur ekki verið raunin í ár. En samt hefur okkur gengið býsna vel og til að mynda aðeins tapað einum leik frá því tímabilinu lauk í fyrra," segir Jón Þór og bætir við að stemningin í hópnum sé mjög góð.

„Stemningin í leikmannahópnum er mjög góð. Við fórum í frábæra æfingaferð til Tenerife sem heppnaðist mjög vel. Þar náðum við að blanda saman góðum æfingum og stemmningu utan æfinga þar sem hópurinn slípaðist mjög vel saman."

Skagamenn komu upp sem nýliðar fyrir síðustu leiktíð og komu nokkuð mikið á óvart. Þeir voru aldrei í neinni fallbaráttu og komu sér í efri hlutann.

„Við áttum gott tímabil í fyrra. Það besta á þessari öld sem nýliðar í deildinni. Margt gekk mjög vel og við náðum að fylgja vel eftir góðu tímabili árið á undan þar sem við unnum Lengjudeildina. Þannig að ég myndi segja að það væri mjög góður stígandi hjá okkur á milli tímabila."

Jón Þór er mjög svo ánægður með leikmannahóp sinn og hvernig hann hefur breyst á milli ára.

„Ég er virkilega ánægður með leikmannahópinn og liðið. Við höfum fengið öfluga leikmenn til liðs við okkur frá því í fyrra. Við fengum Ómar Björn snemma síðasta haust þannig að hann hefur verið með okkur allt undirbúningstímabilið. Gísli Laxdal er nýjasti leikmaður okkar og hann verður fljótur að komast inn í hlutina hjá okkur. Baldvin kemur til með að styrkja vörnina okkar í sumar. Svo má ekki gleyma því að Rúnar Már, Albert Hafsteins og Haukur Andri voru lítið með okkur í fyrra og geta því talist sem mikil styrking í ár. Mesta ánægjuefnið er að við náðum að halda okkar lykilmönnum frá því í fyrra sem er mjög gott og alls ekki sjálfgefið," segir Jón Þór en hver eru markmiðin fyrir sumarið?

„Mitt markmið sem þjálfari liðsins er að búa til gott lið og skapa öfluga liðsheild. Það er mikilvægt að vinna að stöðugleika í klúbbnum. Vegna þess að þegar við skoðum sögu félagsins frá aldamótum þá sjáum við að liðið hefur ekki náð að finna þann stöðugleika sem þarf til að virkilega festa sig í sessi í efri hluta deildarinnar. Fyrsta markmiðið er alltaf að safna sem flestum stigum eins hratt og mögulegt er og enda í efri hluta deildarinnar að loknum 22 leikjum. Svo stokkum við spilin á þeim tímapunkti og setjum okkur ný markmið."

Einhver skilaboð til stuðningsmanna að lokum?

„Ég vona að Skagamenn eigi gott sumar og skemmti sér konunglega á vellinum í sumar," sagði Jón Þór að lokum.
Athugasemdir
banner
banner