fös 31. júlí 2020 16:26
Ívan Guðjón Baldursson
Engar æfingar í meistaraflokki til 13. ágúst
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
ÍSÍ, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, er búið að staðfesta fyrirmæli frá sóttvarnarlækni varðandi íþróttastarfsemi fullorðinna.

Önnur bylgja Covid-19 faraldursins er í fullu fjöri um þessar mundir og hafa smit hér á landi aukist gríðarlega síðustu daga.

Tveggja metra reglan er komin aftur á og fjöldatakmörkun er komin aftur niður í 100 manns, í stað 500.

Ákvæðið um fjöldatakmörkun gildir þó ekki um börn sem eru fædd 2005 eða síðar.

Af vefsíðu ÍSÍ:
ÍSÍ óskaði eftir nánari útlistun frá sóttvarnarlækni varðandi íþróttastarfsemi fullorðinna og fékk rétt í þessu til baka tilmæli um eftirfarandi:

1. Að gert verði hlé á æfingum og keppni í íþróttum með snertingu til 13. ágúst næstkomandi eða þar til núgildandi auglýsing um takmarkanir á samkomum fellur úr gildi.
2. Að æfingar og keppni í íþróttum án snertingar haldi áfram eftir því sem hægt er, að virtum reglum um fjöldatakmarkanir og nálægðarmörk skv. auglýsingu heilbrigðisráðherra.
3. Að sameiginlegur búnaður verði sótthreinsaður milli notkunar/notenda.

ÍSÍ hvetur íþróttahreyfinguna til að fara að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda og að viðhafa allar nauðsynlegar sóttvarnir.

Verum ábyrg!
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner