Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   mið 06. apríl 2011 08:00
Sammarinn.com
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Stjörnufall í þýsku knattspyrnunni
Sigurlaugur Ingólfsson skrifar
Sammarinn.com
Sammarinn.com
Mynd: Merki
Meistaraliðið frá 1979.
Meistaraliðið frá 1979.
Mynd: Wikipedia
Það kannast kannski ekki allir við liðið BFC Dynamo Berlín. Liðið státar þó af tíu meistaratitlum, og það sem meira er þeir unnust allir á tíu ára tímabili. Reyndar var það í gömlu austur-þýsku deildinni.

Þegar þýska knattspyrnusambandið ákvað að leyfa sigursælum liðum að skreyta búninga sína með stjörnum fóru menn á nýjan leik að velta fyrir sér réttmæti sigurgöngu Dynamo liðsins á sínum tíma.

Það kannast flestir við stórlið Bayern Munchen, Borussia Mönchengladbach, Werder Bremen, Borussia Dortmund, Hamburger SV og Stuttgart. Samtals hafa þessi lið unnið þýska meistaratitilinn í knattspyrnu 40 sinnum, þar af Bayern Munchen 22 sinnum.

Árið 2004 tók þýska knattspyrnusambandið upp það fyrirkomulag að lið sem hefðu unnið þrjá Þýskalandsmeistaratitla mættu merkja keppnisbúninga sína með einni stjörnu. Lið sem höfðu unnið fimm sinnum fengu tvær stjörnur og loks fengu lið sem unnið hefðu meistaratitla tíu sinnum þrjár stjörnur. Forsvarsmenn fjórðu deildarliðsins BFC Dynamo Berlín sendu inn beiðni um að fá að merkja búninga sína með þrem stjörnum, en ekkert svar barst frá þýska knattspyrnusambandinu.

Tengsl við Stasi
Það er óhætt að segja að liðið hafi verið óstöðvandi á 9. áratug 20. aldar. Þýska knattspyrnusambandið viðurkenndi ekki titla sem lið unnu á tímum Austur-Þýskalands, en samt hafa landsleikir Matthias Sammer með Austur-Þýskalandi verið taldir með þeim sem Sammer lék með sameinuðu liði Þýskalands og eins er Evrópumeistaratitill bikarhafa sem Magdeburg vann árið 1974 viðurkenndur. En Dynamo Berlín hefur orðspor sem fá lið geta hrist af sér.

Liðið á rætur sínar að rekja til knattspyrnuliðs lögreglu Austur-Berlínarborgar, sem var stofnað árið 1949. Það starfaði undir ýmsum nöfnum næstu árin. SG Dynamo Berlín, Sport Club Dynamo Berlín og frá 1966 sem Berlíner Fussballclub Dynamo. Félagið var þó þekktast undir nafninu Dynamo Berlín. Framan af vegnaði liðinu illa í austur-þýsku knattspyrnunni. Árið 1954 reyndu yfirvöld í Alþýðulýðveldinu að styrkja liðið með því að skipa bestu leikmönnu stórliðs Dynamo Dresden að flytja sig yfir til Berlínar til að leika með liðinu. Leikur liðsins varð betri, en árangurinn þó skammvinnur. Það var hinsvegar fyrir tilstuðlan Erich Mielke að gæfa Dynamo Berlínar fór að glæðast og í lok áttunda áratugarins hófst óslitin sigurganga liðsins; liðið var meistari Austur-Þýskalands frá 1979 og þar til að Berlínarmúrinn féll árið 1989.

Erich Mielke var mikill áhugamaður um knattspyrnu og áhrifamaður í Alþýðulýðveldinu. Hann var háttsettur í austur-þýska kommúnistaflokknum og það sem munaði kannski mest um var að hann var yfirmaður Stasi, austur-þýsku leyniþjónustunnar, frá 1957 til 1989. Stjórnvöld í Alþýðulýðveldinu Austur-Þýskalandi var mjög umhugað um íbúa ríksins og fylgdust gaumgæfilega með öllum. Talið er að Stasi hafi verið með um tvær milljónir njósnara og uppljóstrara á sínum snærum. Símar voru hleraðir og njósnað var um ferðir fjölda fólks. Þessum þætti í sögu Þýskalands hefur verið gefinn gaumur í nýlegum kvikmyndum á borð við Das Leben der Anderen eða The lives of others frá 2006.

Dómari dæmdur í ævilangt bann
Dynamo Berlín var mjög illa þokkað lið utan sem innan vallar. Það var öllum ljóst að áhrif Mielke í velgengni liðsins var umtalsverð. Talið er að Mielke hafi beitt Stasi í þágu liðsins, bæði til að fá sterka leikmenn til að ganga til liðs við Dynamo og eins að tryggja að dómarar dæmdu liðinu í hag í leikjum. Frægasta og alræmdasta dæmið var leikur Dynamo gegn Lokomotive Leipzig í mars árið 1986.

Dynamo þurfti jafntefli í leiknum til að verða meistari, en Leipzig skoraði fyrst. Bernd Stumpf dómari leiksins tók þá ráðin í sínar hendur. Hann rak einn leikmann Leipzig liðsins útaf, fyrir litlar sakir að því menn töldu. Þegar komið var fram á lokamínútuna var Dynamo þó enn 1-0 undir. Stumpf bætti við fimm mínútum í uppbótartíma og dæmdi að lokum vafasama vítaspyrnu á Leipzig. Leikmaður Dynamo Berlín skoraði og liðið tryggði sér þar með sinn áttunda meistaratitil í röð. Austur-þýska knattspyrnusambandið neyddist til að skoða atvik leiksins og dæmdi að lokum Stumpf í ævilangt bann. En úrslit leiksins stóðu og Dynamo hélt titlinum og hlaut enga refsingu. Eftir fall Berlínarmúrsins kom í ljós að Stumpf hafði verið á mála hjá Stasi.

Sakaðir um landflótta
Helstu mótherjar Dynamo Berlín voru á þessum árum Dynamo Dresden. Árið 1981 lét Stasi handtaka þrjá landsliðsmenn úr röðum Dynamo Dresden á flugvellinum í Berlín, en þeir voru á leið til Argentínu til að taka þátt í kappleik þjóðanna. Var þeim gefið að sök að vera að íhuga flótta til Vestur-Þýskalands. Gerd Weber var einn fundinn sekur og dæmdur í fangelsi. Hinum tveimur, Matthias Muller og Peter Kotter, var sleppt en bannað að taka þátt í leikjum í efstu deild í knattspyrnu.

Árið 1989 féll múrinn og í kjölfarið Alþýðulýðveldið Austur-Þýskaland. Dynamo Berlín tók upp nafnið FC Berlín í von um að þvo af sér Stasi-stimpilinn. Liðinu var leyft að taka þátt í þriðju deild í sameinaðri deildakeppni tímabilið 1991-1992. En án bakhjarlsins Mielke dalaði árangurinn verulega. Áhorfendur voru fáir og liðið féll um deild. Árið 1999 tók liðið aftur upp nafnið BFC Dynamo.

Liðið spilar nú í fimmtudeild Norðausturdeildarinnar (Oberliga Nordost-Nord (IV)) og hefur orðið lítt ágengt síðustu ár. Stjórnendur liðsins tóku þó upp á því að setja þrjár stjörnur í merki sitt í trássi við þýska knattspyrnusambandið og halda á lofti glæstum árangri sem margir Þjóðverjar og þó einkum þeir í austurhluta landsins telja að hafi náðst með svindli og bolabrögðum í skjóli hins volduga Stasi.

Smelltu hér til að taka þátt í umræða um greinina á Sammarinn.com
banner
banner