Dyche að taka við Forest - Chelsea vill Aghehowa - Njósnarar Barcelona sáu Greenwood fara á kostum
   mán 20. október 2025 22:37
Ívan Guðjón Baldursson
Howe um Mourinho: Brautryðjandi hugsjónamaður
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Eddie Howe þjálfari Newcastle er spenntur fyrir heimaleik gegn Benfica í Meistaradeild Evrópu annað kvöld.

Howe svaraði spurningum á fréttamannafundi í dag og tjáði sig meðal annars um José Mourinho umdeildan þjálfara Benfica.

„José er þjálfari sem ég ber mikla virðingu til. Hann hafði mikil áhrif á mig þegar ég var ungur þjálfari að taka mín fyrstu skref, hann afrekaði magnaða hluti og er án nokkurs vafa mikill hugsjónamaður. Hann var brautryðjandi í þjálfaraheiminum og ég hlakka gríðarlega mikið til að mæta honum aftur eftir að hafa keppt við hann áður í ensku úrvalsdeildinni. Ég held að þetta verði mjög góður leikur," sagði Howe.

Mourinho hefur alltaf verið hrifinn af Newcastle þó að hann hafi aldrei þjálfað liðið. Snemma á þjálfaraferlinum átti hann í mjög nánu vinasambandi við Sir Bobby Robson, fyrrum þjálfara Newcastle, og fylgdi honum sem aðstoðarmaður hjá Sporting CP, Porto og Barcelona á fimm árum frá 1992 til 1997.

Í gegnum árin hefur Mourinho ávalt talað vel um Newcastle og veit Howe allt um það.

„Ég hef heyrt það sem José hefur sagt um Newcastle og ég er algjörlega sammála honum. Hann átti frábær orð um Sir Bobby og það hlutverk sem hann spilaði á ferlinum hjá José. Við munum samt ekki gefa honum neinn afslátt þegar dómarinn flautar á morgun, við þurfum á þremur stigum að halda."

Newcastle tapaði 2-1 í Brighton um helgina og á núna þrjá heimaleiki í röð framundan. Leikmannahópurinn er við góða heilsu en það vantar þó Tino Livramento, Yoane Wissa, Lewis Hall og Harrison Ashby vegna meiðsla. Þá er Sandro Tonali að glíma við veikindi og gæti misst af leiknum.
Athugasemdir
banner