Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 27. mars 2012 13:00
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Guardian 
Töframaðurinn sem treystir frekar á skipulag en peninga
Ivan Jovanovic hefur gert magnaða hluti með Apoel.
Ivan Jovanovic hefur gert magnaða hluti með Apoel.
Mynd: Getty Images
Sóknarmaðurinn Ailton hjá Apoel.
Sóknarmaðurinn Ailton hjá Apoel.
Mynd: Getty Images
Serbinn Ivan Jovanovic hefur náð undraverðum árangri með kýpverska liðið Apoel frá Nikósíu . Enginn bjóst við neinu af liðinu í Meistaradeildinni en í kvöld mætir það Real Madrid í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Jovanovic er 49 ára gamall. Óeirðir í leik í Austur-Þýskalandi höfðu mikil áhrif á feril hans sem leikmaður. Hans lið, Rad Belgrad var að leika við Carl Zeiss Jena þegar allt sauð upp úr. Sjálfur tók Jovanovic ekki þátt í slagsmálunum, var farinn af velli, en þurfti að axla ábyrgð sem fyrirliði og var dæmdur í tveggja ára bann af UEFA frá Evrópukeppnum.

Þetta bann hafði mikil áhrif. Jovanovic hafði náð samkomulagi við Metz en franska félagið hætti við að fá hann eftir bannið. Í staðinn fór hann til Iraklis í Grikklandi.

Þrívegis komst Irakles í UEFA-bikarinn. Í fyrstu tvö skiptin var Jovanovic ólöglegur en í það þriðja féll lið hans úr leik í annarri umferð undankeppninnar í leik gegn Apoel. Nú fimmtán árum síðar er Jovanovic að fara að stýra Apoel í Meistaradeildinni.

Vildi ekki Real Madrid
Jovanovic lýsir einvíginu sem miklum heiðri en hefði þó vilja dragast gegn öðru liði. „Eftir það mikla erfiði sem við höfum lagt á okkur þá vonuðumst við eftir því að verða heppnari með drátt," segir hann.

Jovanovic var fyrirmyndar námsmaður og fékk hæstu einkunnir. Hann gerði samkomulag við foreldra sína um að hann mætti halda áfram í fótboltanum svo lengi sem hann héldi áfram að mennta sig um leið.

Þjálfaraferill hans hófst hjá gríska félaginu Niki Volou en hann tók svo við stjórn Iraklis 2002 og í nóvember 2003 tók hann við Apoel. Hann vann meistaratitilinn á fyrsta tímabili en leikmenn og stuðningsmenn snérust gegn honum á öðru tímabili. Þann 5. mars var hann rekinn eftir fyrsta tap tímabilsins, liðið var þá tveimur stigum á eftir Apollon sem var á toppnum.

Engin tilviljun
Í janúar 2008 var hann ráðinn aftur til Apoel og hefur unnið tvo deildarmeistaratitla með liðinu náði hann að koma Apoel í riðlakeppni Meistaradeildarinnar 2009-10. Það var þá annað liðið frá Kýpur til að ná þeim árangri. Á yfirstandandi tímabili sló hann svo öll met með því að koma liðinu í útsláttarkeppni sterkustu fótboltadeildar heims.

„Þetta er engin tilviljun. Þegar Apoel spilaði fyrst í riðlakeppninni sýndi liðið góða frammistöðu gegn Chelsea, Porto og Atletico Madrid og missti af sæti í Evrópudeildinni bara á markatölu. Árið á eftir vorum við óheppnir að falla út gegn Getafe í Evrópudeildinni.," segir Jovanovic.

„Í þrjú ár hefur verið uppbygging í gangi og með frábæru skipulagi hefur þessi árangur náðst. Margir gera sér ekki grein fyrir þeim árangri sem við höfum náð. Að við, félag frá Kýpur, sé að spila í riðlakeppninni er eins og fyrir Real Madrid að vinna keppnina."

Mikill munur á launum
Það er magnað að bera Apoel saman við stórveldi Real Madrid. LaunaLÆGSTI leikmaður Madrídarliðsins er varamarkvörðurinn Adan. Hann fær um 550 þúsund evrur á ári. LaunaHÆSTI leikmaður Apoel er brasilíski sóknarmaðurinn Ailton sem fær 450 þúsund evrur.

Ailton er leikmaður sem fólk ætti að fylgjast með í leikjunum gegn Real. Hann mun vera einn í fremstu víglínu. Hann er gríðarlega vinnusamur miðað við sóknarmann, er duglegur að draga sig til baka og sækja boltann auk þess sem hann er mjög góður í að klára færi. Þessi 27 ára leikmaður lék áður með FCK í Danmörku og Örgryte í Svíþjóð.

„Okkar lið byggist á góðum anda innan leikmannahópsins, miklu skipulagi og metnaði," segir Jovanovic sem vill fulla einbeitingu í starfi sínu. Eiginkona hans og tveir synir búa í Thessaloniki meðan hann býr einn í Kýpur og einbeitir sér að starfi sínu. Bensín hans eru sígarettur, kaffi og kók.

Tók út dómarann
Sem dæmi um þann metnað sem Jovanovic leggur í starf sitt þá horfði hann á fjölda leikja sem spænski dómarinn Undiano Mallenco dæmdi þegar ljóst var að Mallenco myndi dæma seinni leikinn gegn Lyon. Það einvígi endaði í vítaspyrnukeppni en þá hafði markmannsþjálfari Apoel, Goran Gumic, rannsakað allar vítaspyrnur Lyon síðustu þrjú ár. Það var bara Kim Kallström sem spyrnti í aðra átt en Gumic hafði reiknað með.

Vinnusemi og skipulag hafa komið Apoel svona langt. Liðið spilar ekki skemmtilegasta fótbolta í Evrópu en árangurinn talar sínu máli. Apoel hefur orðið að fyrirmynd smærri félaga í Evrópu.

„Það er ekki auðvelt að búa til sterkt lið með lítinn pening milli handanna. En það er ekki hægt að gera ráð fyrir árangri þrátt fyrir að eyða háum fjárhæðum Ef þú hefur ekkert skipulag og markmið yfir það sem þú telur þig geta gert," segir Jovanovic.
Athugasemdir
banner
banner
banner