Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   mán 21. maí 2012 16:30
Magnús Már Einarsson
Bestur í 1. deild: Stórt tækifæri fyrir mig
Leikmaður 2. umferðar: Robin Strömberg (Þór)
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
,,Það var mjög gaman að skora í fyrsta leik og ég er ánægður með það og stigin þrjú," segir Robin Strömberg framherji Þórs en hann er leikmaður 2. umferðar í fyrstu deildinni hér á Fótbolta.net.

Robin kom til Þórs á reynslu fyrr í mánuðinum og hann samdi síðan við félagið fyrir rúmri viku.

Þessi tvítugi leikmaður stimplaði sig inn í sínum fyrsta leik gegn Þrótti um helgina en hann skoraði eitt mark og lagði upp annað í 3-1 sigri eftir að hafa komið inn á sem varamaður í fyrri hálfleik.

,,Þetta er góð reynsla, að fara í nýtt land og kynnast nýju fólki. Það eru allir mjög vingjarnlegir. Við erum með gott lið og ég held að við getum unnið deildina og farið upp í úrvalsdeildina," sagði Robin sem ákvað að stökkva á tækifærið og ganga til liðs við Þór á láni frá Mjallby í Svíþjóð.

,,Ég vissi ekki mikið um Ísland en ég vissi að þetta væri fallegt land með frábæra náttúru. Ég taldi að þetta yrði góð reynsla og eitthvað nýtt og skemmtilegt. Þetta er stórt tækifæri fyrir mig."

,,Akureyri er rólegur bær og ég kann vel við mig þar. Það er stutt í náttúruna og það er gott sambland af borg og náttúru."


Þegar Fótbolti.net ræddi við Robin í dag var hann staddur í Svíþjóð að ganga frá flutningum til Íslands en hann verður af þeim sökum ekki með Þór í bikarleiknum gegn KF annað kvöld.

,,Bikarleikurinn var færður og það var búið að bóka flugmiðana svo þess vegna missi ég af leiknum. Ég verð með á móti Haukum á laugardag og ég einbeiti mér að því núna, vonandi munum við eiga góðan leik."

Robin er á láni hjá Þór en hann segist ekki vera farinn að hugsa neitt lengra fram í tímann.

,,Ég vona að ég muni eiga marga góða leiki með Þór og síðan sjáum við til hvað gerðist. Ég einbeiti mér bara að því að spila með Þór," sagði Robin að lokum.

Sjá einnig:
Leikmaður 1. umferðar - Birkir Pálsson (Höttur)
Athugasemdir
banner
banner
banner