Ólafur Jóhannesson og hans menn í Haukum mega prísa sig sæla með að fá þrjú stig úr leik Hauka og Víkings R. í 10.umferð 1.deildar karla sem fram fór í kvöld. Víkingar höfðu öll völd á leiknum en Haukar nýttu sín tvö færi í leiknum og héldu hreinu.
,,Þetta eru tvö lið sem báðum langar að fara upp og eru að berjast um þessi tvö sæti sem í boði eru og það var vitað fyrir leikinn að þetta yrði mikill 'fight-ingur' og slagsmál og ekki mikill fótbolti," sagði landsliðsþjálfarinn fyrrverandi, en hvað vill hann segja um spilamennskuna hjá Haukum í leiknum, sem var vægast sagt ekki upp á marga fiska,
,,Við unnum saman sem lið og vörðumst mjög vel, fram á við vorum við að reyna halda bolta en það gekk ekki nógu vel, það gekk vægast sagt mjög illa en sem lið unnum við mjög vel og vorum að hlaupa mikið," sagði Óli aðspurður út í spilamennskuna.
Nú fer hinn árlegi félagsskiptagluggi að opna og segir Ólafur, að Haukar munu fara á fullt í að leita af mönnum þegar glugginn opnar,
,,Við förum á fullt í félagsskiptaglugganum og reynum að ná í eins marga leikmenn og hægt er, það er nokkuð ljóst. Við munum líta í kringum okkur ef við eigum möguleika að ná kannski í einn leikmann til að hjálpa okkur sóknarlega þá athugum við það," sagði Ólafur en nokkrir leikmenn hafa verið orðaður við Hauka að undanförnu.
Viðtalið í heild sinni við Ólaf er hægt að sjá í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir