
Ragnar Sigurðsson, varnarmaður íslenska landsliðsins og FC Kaupmannahafnar, er að vonum spenntur fyrir seinni leiknum gegn Króatíu í umspili um sæti á HM 2014 í Brasilíu.
Ragnar var frábær í miðverðinum í síðasta leik og fer hann ásamt liðsfélögum sínum fullur sjálfstrausts í seinni leikinn.
„Við erum bara hrikalega vel stemmdir og getum ekki beðið eftir morgundeginum,“ sagði Ragnar við Fótbolta.net fyrir æfingu íslenska landsliðsins.
„Við þurftum að bakka (í síðasta leik á Laugardalsvelli) þar sem við misstum mann út af, en planið okkar er bara að skora eitt tvö mörk og spila jafn góðan varnarleik og við erum búnir að gera, þá er þetta bara komið.“
Ragnar var ánægður með eigin frammistöðu í markalausa jafnteflinu í Laugardalnum, en hann hélt Mario Mandzukic – einni skærustu stjörnu Króata – algerlega í skefjum.
Fyrir leik hafði mikið verið gert úr ummælum Ragnars um Mandzukic, þar sem hann sagðist ekki þekkja til leikmannsins, og viðurkennir Ragnar að það hafi farið í taugarnar á sér hversu mikið málið var blásið upp.
„Ég var svolítið að pirra mig á hvað þetta var blásið upp einmitt, ég var bara spurður að einhverri spurningu og ég svaraði henni bara satt. En núna veit ég allavega hver hann er, þannig að það þarf ekki að ræða það frekar. En við ætlum bara að endurtaka leikinn þarna í vörninni,“ sagði Ragnar.
Annars voru Króatarnir ekkert að heilla Ragnar neitt sérstaklega mikið í fyrri leiknum.
„Mér fannst bara jákvæðast í þessu að ég bjóst við að þeir yrðu betri og erfiðari að spila á móti. En að sjálfsögðu verða þeir örugglega aðeins betri á heimavelli en þeir voru á útivelli, en við erum bara tilbúnir í að mæta þeim hérna og setja pressu á þá,“ sagði Ragnar, sem hefur ekki áhyggjur af því að taugarnar verði of miklar.
„Við erum með marga mjög reynda leikmenn sem spila í flottum deildum og ég sjálfur hef spilað fullt af taugaveikluðum leikjum, þannig að flestir okkar eru bara vanir þessu stressi og þegar leikurinn byrjar þá gleymir maður því öllu. Þá er bara eitt markmið, og það er að vinna.“
Aðspurður hvort að Ísland sé að fara að tryggja sér farseðil til Brasilíu annað kvöld sagði Ragnar kokhraustur: „Ég sé þetta ekki spilast neitt öðruvísi en það.“
Athugasemdir