Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í Inkasso-deildinni í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði.
Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. Selfoss 155 stig
6. Þór 142 stig
7. Fram 114 stig
8. Leiknir R. 100 stig
9. Haukar 93 stig
10. Magni 73 stig
11. Njarðvík 53 stig
12. ÍR 50 stig
5. Selfoss
Lokastaða í fyrra: 8. sæti í Inkasso-deildinni
Selfyssingar ollu vonbrigðum í fyrra. Eftir gott undirbúningstímabil hallaði undan fæti með hækkandi sól og 8. sætið varð niðurstaðan á endanum.
Þjálfarinn: Gunnar Borgþórsson er á sínu þriðja ári sem þjálfari Selfyssinga. Gunni þekkir fótboltann inn og út á Selfossi en hann þjálfaði áður yngri flokka hjá félaginu sem og meistaraflokk kvenna.
Styrkleikar: Stefán Logi Magnússon er reynslumikill og öflugur markvörður sem gæti átt eftir að verða mjög drjúgur fyrir Selfyssinga í sumar. Varnarleikurinn hefur oft á tíðum verið þéttur undir stjórn Gunna og miðvörðurinn Stefán Ragnar Guðlaugsson bætist nú aftur við hópinn eftir erfið meiðsli. Kjarni heimamanna hefur verið í liðinu í nokkur ár og nú er það næsta skref hjá þeim að reyna að blanda sér í toppbaráttuna.
Veikleikar: Sóknarleikurinn var stirður í fyrra og Selfyssingum gekk illa að brjóta á bak aftur varnir andstæðinganna. Gilles Mbang Ondo á að leysa það en ef það gengur ekki þá gæti orðið vesen. Gengi Selfyssinga á undirbúningstímabilinu var ekkert sérstakt og liðið náði lítið að spila á sínu sterkasta byrjunarliði. Fjórir sigrar í ellefu heimaleikjum varð niðurstaðan í fyrra. Það er ekki boðlegt ef liðið ætlar að blanda sér í baráttuna í efri hlutanum.
Lykilmenn: Gilles Mbang Ondo, Stefán Logi Magnússon, Þorsteinn Daníel Þorsteinsson.
Gaman að fylgjast með: Bjarki Leósson er ungur varnarmaður sem er á láni frá KR. Hefur lofað góðu á undirbúningstímabilinu með Selfyssingum.
Komnir:
Antonio Espinosa Mossi frá Indónesíu
Bjarki Leósson frá KR á láni
Gilles Mbang Ondo frá Vestra
Kenan Turudija frá Víkingi Ó.
Kristófer Páll Viðarsson frá Leikni F.
Stefán Logi Magnússon frá KR
Farnir:
Andy Pew í Vestra
Elvar Ingi Vignisson í Aftureldingu á láni
Giordano Pantano til Acireale á Ítalíu
Guðjón Orri Sigurjónsson í Stjörnuna
James Mack í Vestra
Leighton McIntosh
Fyrstu þrír leikir Selfoss
5. maí Fram - Selfoss
12. maí Selfoss - ÍR
18. maí HK - Selfoss
Athugasemdir