Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fös 15. júní 2007 16:50
Magnús Már Einarsson
Landsbankadeildin: Leikmaður 6.umferðar - Helgi Sig (Valur)
Helgi á skot að marki gegn Víkingi.
Helgi á skot að marki gegn Víkingi.
Mynd: Fótbolti.net - Jón Steinarr
Helgi heilsar upp á Jóhann Kristinsson vallarstjóra á Laugardalsvelli.  Helgi hefur skorað öll fimm mörk sín í Landsbankadeildinni í sumar í Laugardalnum.
Helgi heilsar upp á Jóhann Kristinsson vallarstjóra á Laugardalsvelli. Helgi hefur skorað öll fimm mörk sín í Landsbankadeildinni í sumar í Laugardalnum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Helgi í baráttu við Kenneth Gustafsson leikmann Keflvíkinga.
Helgi í baráttu við Kenneth Gustafsson leikmann Keflvíkinga.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótbolti.net hefur í sumar valið leikmann umferðarinnar í efstu þremur deildum karla. Sjöttu umferðinni í Landsbankadeild karla er nú lokið en þar fór Helgi Sigurðsson á kostum í 3-1 sigri Vals á Víkingi síðastliðið miðvikudagsvköld. Helgi skoraði tvívegis í leiknum og er leikmaður 6.umferðarinnar hér á Fótbolta.net en hann var einnig leikmaður 3.umferðar á síðunni fyrr í sumar.

Helgi Sigurðsson
Framherjinn Helgi Sigurðsson er 32 ára gamall. Hann gekk til liðs við Val síðastliðið haust eftir að hafa leikið eitt ár með sínum gömlu félögum í Fram þar sem hann stóð sig vel og var valinn besti leikmaður fyrstu deildarinnar síðastliðið sumar en hann gerði 13 mörk þar. Helgi lék með Stuttgart 1994-1996 og eftir að hafa leikið með Fram árið 1997 fór hann til Stabæk. Helgi sem hefur skorað tíu mörk í 56 landsleikjum fyrir Íslands hönd lék síðan með Panathinaikos í Grikklandi, Lyn í Noregi og AGF í Danmörku áður en hann fór í Fram fyrir síðastliðið sumar Hann hefur skorað 40 mörk í 71 leik í efstu deild.
,,Ég var nokkuð sáttur við minn leik. Það er alltaf gaman að skora mörk og að skora tvö mörk í sigurleik er alveg frábært. Það var mikilvægast að ná í stigin og það var gaman að geta hjálpað liðinu," sagði Helgi Sigurðsson við Fótbolta.net í dag en hann hefði getað sett þrennu í leiknum.

,,Jú, þegar ég var kominn með tvö hugsaði maður um það að maður ætti möguleika á því en það tókst ekki og verður bara að bíða betri tíma," sagði Helgi sem er markahæstur í Landsbankadeildinni með fimm mörk í sex leikjum.

Öll mörkin hans hafa komið á Laugardalsvelli þar sem að Valur spilar á meðan að framkvæmdir standa yfir á Hlíðarenda. Helgi segir að sér hafi alltaf vegnað vel á Laugardalsvelli.

,,Mér hefur yfirleitt alltaf vegnað vel þar, ég skoraði mikið með Fram þar í fyrra og í gegnum tíðina þegar ég hef spilað þar hefur mér gengið vel. Það er engin sérstök skýring nema kannski það að það er oft meira svæði á Laugardalsvellinum en öðrum völlum, stærri völlur og það hjálpar mínum leik," sagði Helgi en stefnir hann ekki að því að skora á öðrum völlum í sumar?

,,Þetta er allt í lagi meðan ég skora tvö mörk í hverjum leik á Laugardalsvelli, þá er ég alveg sáttur," sagði Helgi og hló en bætti svo við: ,,Ég hugsa ekkert svoleiðis, ég pæli ekkert í því hvar ég er að spila, ég vil bara skora mörk og að þau hafi öll komið á Laugardalsvelli er kannski af því að við höfum spilað fjóra heimaleiki og bara tvo úti. En það er ljóst að hvort sem það er heima eða útileikur þá reyni ég alltaf að skora."

Dennis Bo Mortensen og Guðmundur Benediktsson hafa verið að spila með Helga í fremstu víglínu til skiptis í sumar. ,,Það er fínt að spila með þeim, það er valinn maður í hverju rúmi hjá Val og mikil samkeppni. Þessir tveir leikmenn eru mjög góðir leikmenn, ég væri ekki að skora þessi mörk án hjálpar meðspilara minna og það er ljóst að ég geri þetta ekki einn þannig að það gagnast manni að vera í góðu liði."

Nokkrir íslenskir leikmenn hafa komið heim úr atvinnumennsku á undanförnum árum en ekki náð sér á strik í Landsbankadeildinni. Helgi kom úr atvinnumennskunni í fyrra þegar hann fór í Fram þar sem hann var valinn bestur í fyrstu deild og í kjölfarið fór hann í Val þar sem hann hefur leikið vel í sumar.

,,Ég hef alltaf lagt mig 100% fram í hvern einasta leik sem ég hef farið í og sloppið við meiðsli síðan ég kom heim. Ætli það sé ekki helsta skýringin, ég hef gaman af þessu og er að spila með góðum leikmönnum," sagði Helgi aðspurður hvort það væri sérstök skýring á að hann hefði náð sér vel á strik eftir að hafa komið heim úr atvinnumennskunni.

Fyrsta þriðjungi Landsbankadeildarinnar er nú lokið og Valsmenn hafa tólf stig eftir þrjá leiki en þeir hafa unnið þrjá leiki og gert þrjú jafntefli. Skyldi Helgi vera sáttur við þann árangur?

,,Nokkuð sáttur en ekki alveg sáttur. Það eru tveir jafnteflisleikir þarna sem ég hefði viljað vinna. Það var hrikalega sárt að tapa þessu niður í jafntefli á móti Fram og það var líka sárt að geta ekki unnið Keflavík á heimavelli en það er ljóst að jafnteflin gefa ekki mikið þegar maður ætlar að berjast við FH um titilinn, við verðum að fara að vinna leiki," sagði Helgi en hann segir dapurt gengi KR koma sér mest á óvart til þessa.

,,Maður vissi að maður yrði að eltast við FH-inga allan tímann og svo eru lið eins og Keflavík og Fylkir á eftir okkur eins og maður bjóst við. Ég bjóst ekki við HK svona sterkum, flestir eru búnir að spá þeim falli og þeir eru að standa sig mjög vel. Maður bjóst við KR-ingunum ofar en þeir hafa alls ekki náð sér á strik og það er kannski það sem maður undrast mest," sagði Helgi en hann segir liðið eiga vera í toppbaráttunni ef allt er eðlilegt.

,,KR er með alltof góða leikmenn til að falla en miðað við hvernig þeir eru að spila finnst mér þeir eiga ekkert meira skilið. Þegar maður horfir yfir liðið eru leikmennirnir mjög góðir í þessu og það á að vera í toppbaráttunni ef allt er eðlilegt en miðað við hvernig þeir spila þá er þetta ekki að koma mér á óvart."

Valsmenn mæta Cork City í Intertoto keppninni eftir viku og því er stíft prógramm hjá liðinu á næstunni. ,,Það er nóg af leikjum framundan, Evrópukeppnin byrjar um næstu helgi og síðan eru leikir á móti Skaganum og FH þar á milli. Það er hörkutörn framundan og það er eins gott að við séum með stóran og breiðan hóp og allir menn í lagi til að standast álag," sagði Helgi Sigurðsson, leikmaður 6.umferðar að lokum við Fótbolta.net.

Sjá einnig:
Leikmaður 5.umferðar - Jón Vilhelm Ákason (ÍA)
Leikmaður 4.umferðar - Símun Samuelsen (Keflavík)
Leikmaður 3.umferðar - Helgi Sigurðsson (Val)
Leikmaður 2.umferðar - Bjarni Þórður Halldórsson (Víkingi)
Leikmaður 1.umferðar - Matthías Guðmundsson (FH)
Athugasemdir
banner
banner