Allegri orðaður við Man Utd - Modric að framlengja við Real Madrid
banner
   fim 25. júní 2009 13:43
Hafliði Breiðfjörð
Myndband: Coca Cola strákurinn spilar reglulega með Breiðablik
Myndband af auglýsingunni neðst í fréttinni
Haukur Baldvinsson.
Haukur Baldvinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Haukur Baldvinsson framherji Breiðabliks skoraði tvö marka liðsins í 4-4 jafntefli gegn Keflavík á dögunum og hefur verið að festa sig í sessi hjá liðinu. Það vita færri að Haukur varð þekktur á Íslandi fyrir knattspyrnuhæfileika sína á fermingarári sínu, árið 2004, er hann lék í vinsælli auglýsingu með Eiði Smára og Arnóri Guðjohnsen.

Auglýsingin var hluti af sumarleik Cola Cola árið 2004 sem var sama ár og Evrópumótið fór fram í Portúgal. Haukur sem er í dag 19 ára gamall var 14 ára þegar þetta var.

,,Þetta var í kringum fermingaraldurinn hjá mér. Það var haft samband við þjálfarann okkar og það voru nokkrir strákar fengnir í prufu og ég endaði í þessu. Þetta var bara gaman," sagði Haukur í samtali við Fótbolta.net í dag.

,,Eiður Smári virkaði mjög fínn náungi. Ég sat í bílnum hjá honum milli staða og svona, við áttum ekki mikil samskipti en hann var bara mjög fínn."

Haukur skoraði tvö mörk fyrir Breiðablik í hörkuleik gegn Keflavík fyrr í sumar en um hörkuleik var að ræða þar sem Keflavík komst í 0-2, Blikar komust svo í 4-2 áður en Keflavík jafnaði.

,,Ég átti alveg von á að fá tækifærið í sumar. Við erum með svolítið lítinn hóp svo það þarf ekki mikið útaf að bregða svo ég fái tækifæri. Svo fékk ég tækifærið og náði að nýta mér það. Fyrsti leikurinn sem ég byrjaði inná í Pepsi-deildinni var á móti Keflavík og það var stórkostlegt að ná að skora. Það hefur ábyggilega var gaman að vera áhorfandi á þessum leik en leiðinlegt fyrir okkur að komast í 4-2 og tapa þessu niður."

,,Ég er bæði ánægður og ekki með sumarið. Við ætluðum okkur fleiri stig í fyrstu leikjunum en við náðum en liðsandinn er góður og ég held að þetta verði allt í lagi. Ég ætla mér að vera í byrjunarliðinu í sumar, ég var reyndar ekki í byrjunarliðinu gegn Stjörnunni í síðasta leik og er frekar svekktur með það, en ég hef enga trú á öðru en að nég fái að byrja aftur í sumar."


Athugasemdir
banner
banner
banner