Man City gerir tilboð í Olmo - Barcelona reynir líka að fá spænska landsliðsmanninn - Wan-Bissaka vill ekki fara til West Ham
banner
   fös 17. maí 2024 11:55
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Dortmund sé lið fólksins - „Það væri ekkert að fara að gerast hjá okkur"
Tómas er mikill stuðningsmaður Dortmund.
Tómas er mikill stuðningsmaður Dortmund.
Mynd: Úr einkasafni
Eftir mikil vonbrigði í fyrra er Dortmund núna komið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.
Eftir mikil vonbrigði í fyrra er Dortmund núna komið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.
Mynd: Getty Images
Dortmund fór í gegnum dauðariðilinn.
Dortmund fór í gegnum dauðariðilinn.
Mynd: EPA
Edin Terzic er með mikið Dortmund hjarta.
Edin Terzic er með mikið Dortmund hjarta.
Mynd: EPA
Marco Reus leikur sinn síðasta leik með Dortmund á Wembley. Goðsögn hjá félaginu.
Marco Reus leikur sinn síðasta leik með Dortmund á Wembley. Goðsögn hjá félaginu.
Mynd: EPA
Niclas Fullkrug fagnar hér marki.
Niclas Fullkrug fagnar hér marki.
Mynd: EPA
Guli veggurinn er rosalegur.
Guli veggurinn er rosalegur.
Mynd: Getty Images
Sancho hefur komið sterkur inn hjá Dortmund eftir áramót.
Sancho hefur komið sterkur inn hjá Dortmund eftir áramót.
Mynd: Getty Images
Mats Hummels spilaði líka í úrslitaleiknum 2013.
Mats Hummels spilaði líka í úrslitaleiknum 2013.
Mynd: EPA
Tómas og Egill Atlason, sonur Atla Eðvaldssonar.
Tómas og Egill Atlason, sonur Atla Eðvaldssonar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það verður spennandi að sjá hvað Dortmund gerir í úrslitaleiknum.
Það verður spennandi að sjá hvað Dortmund gerir í úrslitaleiknum.
Mynd: EPA
„Þegar ég leit yfir riðilinn í Meistaradeildina þá hugsaði ég mér að það væri ekkert að fara að gerast hjá okkur þennan veturinn," segir Tómas Meyer, einn af stuðningsmönnum Borussia Dortmund hér á Íslandi, í samtali við Fótbolta.net. Annað kom á daginn en Dortmund er komið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar og mætir þar Real Madrid þann 1. júní næstkomandi.

Þetta er í þriðja sinn sem Dortmund fer í úrslitaleik Meistaradeildarinnar en það gerðist síðast 2013. Sá leikur var á Wembley, rétt eins og leikurinn núna, en Dortmund tapaði þá gegn erkifjendum sínum í Bayern München í hörkuleik. Árið 1997 fór Dortmund með sigur af hólmi í úrslitaleiknum gegn Juventus en Tómas man vel eftir þeim leik.

„Menn tala voða mikið um liðið frá 2013, en tölum um 1997. Það er mitt Dortmund lið. Stefan Klos, Matthias Sammer, Júlio César, Lars Ricken, Heiko Herrlich... guð minn góður. Karl-Heinz Riedle sem skoraði á móti Juventus í úrslitaleiknum. Ég á enn peysuna frá þessum árum. Hún hefur farið í gegnum heilt hjónaband. Hún vildi alltaf að ég myndi henda henni en ég sagði alltaf nei. Hún fer með mér í gröfina. Geggjuð peysa," segir Tómas.

„Dortmund hafði verið sofandi risi þarna í ansi mörg ár. Hitzfeld tók við og vekur hann. Ég sé ekki kannski mikil líkindi með liðinu núna og því liði, en ég sé líkindi með liðinu núna og því sem Matthias Sammer gerði að meistara 2002. Kannski líka liðinu sem Klopp var með. Mitt Dortmund lið er liðið 1995-97. Það er mitt lið og þá skein stjarna Meyersins hæst."

Svekkelsið var rosalegt síðasta sumar
Það var rosalega erfitt fyrir stuðningsmenn Dortmund að sætta sig við síðasta tímabil. Liðið var með þýska meistaratitilinn í höndum sér en tapaði honum til Bayern á lokamínútunum í lokaumferðinni.

„Svekkelsið var rosalegt síðasta sumar þegar þeir töpuðu titlinum í síðasta leiknum. Ég man hvar ég var þegar ég sá þetta gerast. Ég var á leið til Vestmannaeyja að dæma leik KFS og Kormák/Hvatar. Ég er að ganga inn í Herjólf þegar Bayern verður meistari. Þetta var hræðilegt. En það var bara áfram gakk. Ég bjóst við því að þeir myndu koma brjálaðir til leiks á þessu tímabili og sýna það að þeir væru besta lið Þýskalands," segir Tómas.

„Því miður gekk það ekki alveg eftir í deildinni en þeir eru í fimmta sæti og eru öruggir í Meistaradeildina sama hvort þeir vinni Real Madrid eða ekki. Þýska deildin fær fimm sæti þar sem hún er ein sterkasta og skemmtilegasta deild Evrópu."

Riðillinn í Meistaradeildinni var afar erfiður, dauðariðillinn. Ásamt Dortmund voru AC Milan, Newcastle og Paris Saint-Germain í riðlinum en þeir gulu frá Þýskalandi gerðu sér lítið fyrir og unnu riðilinn.

„Mér datt í hug að við myndum kannski ná sjö stigum og komast þannig í Evrópudeildina. Árangur liðsins á heimavelli í Meistaradeildinni er hins vegar stórkostlegur. Þeir eru ekki búnir að tapa leik á heimavelli í þessari keppni síðan 2021," segir Tómas en Dortmund hefur svo unnið PSV Eindhoven, Atletico Madrid og PSG í útsláttarkeppninni. Einvígið gegn PSG var virkilega skemmtilegt áhorfs.

„Í þessu einvígi gegn PSG brá mér ekki einu sinni þegar þeir frá París voru að skjóta í stöngina og slána. Ég var afar rólegur, við vorum að fara á Wembley. Við kláruðum þetta heima. Ég var að vona að helvítis Bayern München myndi koma með en því miður gerðist það ekki."

Það er það sem vinnur þetta fyrir okkur
En hver er lykillinn að þessum flotta og óvænta árangri Dortmund í Meistaradeildinni?

„Lykillinn að þessu er að mínu mati alltaf útsjónarsemi þjálfarans, leikstíllinn, liðsheildin og lukka. Það er það sem vinnur þetta fyrir okkur. Það má ekki gleyma því að þessi völlur í Westfalen er geggjaður og það eru alltaf 80 þúsund manns þarna. Það myndast ótrúleg stemning - og kannski sérstaklega á þessum Meistaradeildarkvöldum - sem hjálpar liðinu mikið," segir Tómas.

„Það hefur myndast mikil liðsheild í Meistaradeildinni á þessu tímabili. Þegar þýskt lið fer í úrslitaleikinn þá ertu með þýsku þjóðina á herðum þér í stuðningi, nema þegar Bayern fer. Þá eru bara Bæjarar sem styðja það."

Þjálfari Dortmund er Edin Terzic en hann er ekki mjög þekkt nafn í fótboltaheiminum. Hann er mikill stuðningsmaður Dortmund og hefur búið til mikla stemningu í kringum liðið í Meistaradeildinni.

„Þessi gæi er svolítið skemmtilegur. Hann spilaði bara í neðri deildum í Þýskalandi. Hann er frá Dortmund svæðinu, þar nálægt. Hann er fæddur í Þýskalandi en er Króati líka. Áður en hann tekur við Dortmund, þá er hann unglingaþjálfari hjá félaginu og var einnig að þjálfa varaliðið. Hann vann með Slaven Bilic á árum áður. Þeir voru saman hjá Besiktas í Tyrklandi og svo hjá West Ham á Englandi. Fyrir 10-12 árum síðan var hann leikgreinandi hjá króatíska landsliðinu. Þetta er í annað sinn sem hann tekur við Dortmund. Hann var með liðið eftir að Lucien Favre var rekinn og svo aftur eftir að Marco Rose var látinn fara."

„Hann er stuðningsmaður Dortmund og elskar félagið," segir Tómas. „Hann horfir á Klopp vinna alla sína titla með liðinu og hefur lengi fylgst með Dortmund. Hann er sjálfur búinn að vinna einn titil en hann varð bikarmeistari með liðið árið 2021. Þetta er bara gæi sem lifir fyrir þetta, hann er líflegur og gerir þetta vel. Af því hann er ekki þekktur þá horfa menn kannski ekki mikið til hans. Menn þurfa ekki að vera frægir í þessu. Dortmund treystir á hann og það hefur borgað sig. "

„Þetta er gæi með alvöru Dortmund hjarta og honum hefur tekist að ná upp Dortmund stemningunni, en þetta er auðvitað mikið stemningsfélag eins og fólk hefur kannski séð á árum áður."

Margir leikmenn í uppáhaldi
Það er erfitt fyrir Tómas að velja einn uppáhalds leikmann úr liðinu í dag.

„Ég á marga leikmenn í uppáhaldi í liðinu í dag. Mats Hummels, ég hef alltaf haft mikið dálæti á honum. Ég var fúll þegar hann fór heim til Bayern en hann er uppalinn þar. Mér finnst hann alltaf mjög góður. Svo er þarna frændi minn Alexander Meyer. Hann hlýtur að vera frændi minn. Besti varamarkvörður í heimi. Emre Can er minn maður og Sancho líka. Karim Adeyemi er þá gríðarlega spennandi leikmaður sem getur farið langt. Ég er líka af gamla skólanum og Niclas Füllkrug er með mér þar. Þetta er bara geggjað lið, en mitt lið verður samt alltaf 1997 liðið," segir Tómas en hvað með sjálfan Marco Reus?

„Sorrý, Marco Reus er svo alltaf minn maður. Hann er þvílík goðsögn þarna. Hann kemur frá Gladbach og er búinn að vera í Dortmund núna í tólf ár. Hann er frábær sendiherra fyrir liðið. Ég held að hann fari til Bandaríkjanna eftir þetta tímabil. Þetta er alvöru gæi sem fær lokaleik á Wembley. Það sem hann hefur gert fyrir Dortmund er ótrúlegt. Sjáðu allar stórstjörnurnar sem hafa spilað með honum. Þeir nefna allir Reus þegar þeir eru setja saman eitthvað draumalið."

Ætlar í gula vegginn
Tómas á ættir að rekja til Dortmund og tengingin við félagið og borgina er sterk.

„Ég er Þjóðverji. Mamma mín er þýsk og fjölskylda mín bjó í Westfalen. Afi rak þar bar þar sem leikmenn Dortmund komu og fengu sér að drekka. Það er mín tenging við félagið. Ég segist alltaf vera þaðan þó það sé kannski ekki alveg þannig. Ég horfi bara á þetta sem mína menn," segir Tómas.

„Það má ekki gleyma því að það er íslensk tenging við Dortmund. Atli Eðvaldsson og Magnús Bergs spiluðu með liðinu í kringum 1980. Ég kynntist Atla síðar á lífsleiðinni og blessuð sé minning hans. Hann sagði mér skemmtilegar sögur frá þessum tíma."

„Dortmund hefur alltaf verið lið fólksins. Þeir hafa alltaf spilað skemmtilegan fótbolta og þeim hefur tekist að þróa nokkrar súperstjörnur. Þarna hafa leikmenn fengið umhverfi til að blómstra. Við erum að sjá það núna með Jadon Sancho. Hann er geggjaður."

Á heimaleikjum Dortmund kemur alltaf saman harður kjarni stuðningsmanna í einni stúkunni og er alveg ótrúleg stemning þar. Er það kallað 'guli veggurinn' en Tómas ætlar sér einn daginn að komast þangað.

„Ég hef ekki farið í gula vegginn en ég hef farið á völlinn. Það er alltaf draumur að upplifa það og það verður að veruleika einhvern tímann. Sonur minn er orðinn brjálaður Dortmund maður, ég náði að smita hann. Það var geggjað að sjá Jamie Carragher í gula veggnum og ég held að hann hafi selt vörumerki Dortmund fjórfalt á við það sem þeir eru að reyna að gera. Dortmund er lið sem er í eigu félagsmanna og það er virkilega flott."

Við erum að fara að vinna þetta
En Dortmund - Real Madrid, hvernig fer þessi áhugaverði úrslitaleikur eiginlega?

„Ég er ógeðslega spenntur fyrir leiknum og mig langar ógeðslega að fara. Ég trúi því að við klárum þetta og vinnum þetta lið. Það er alveg hægt að vinna Real Madrid þó þeir séu ótrúlega góðir. Ég hef trú á því að núna verði lukkan með okkur og við vinnum. Tökum okkar annan Meistaradeildartitil en það er kominn tími á það. Juventus var langbesta lið Evrópu þegar við unnum þá 1997 en svo kom guli veggurinn og kláraði þetta. Vonandi verður það þannig aftur," segir Tómas og bætir við:

„Við erum að fara að vinna þetta, ég trúi því."




Athugasemdir
banner