„Ég hefði viljað vinna, en þetta er bara svona. Það munaði einu marki í vítaspyrnukeppni," sagði Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA, eftir tap gegn Stjörnunni í úrslitaleik Lengjubikarsins í dag.
„Við erum mjög svekkt hvernig við gáfum þeim seinna markið þar sem við missum boltann í kjörstöðu. Við eigum bara eftir að stinga honum í gegn og klára leikinn, en við missum hann. Það sló okkur svolítið illa."
„Við erum mjög svekkt hvernig við gáfum þeim seinna markið þar sem við missum boltann í kjörstöðu. Við eigum bara eftir að stinga honum í gegn og klára leikinn, en við missum hann. Það sló okkur svolítið illa."
Lestu um leikinn: Stjarnan 7 - 6 Þór/KA
„Við eigum mikið inn spilalega séð, en þetta var jafn úrslitaleikur á móti liði sem er spáð mikilli velgengni. Ég get ekki verið mjög ósáttur við mitt lið, ég er mjög ánægður með þær."
Þór/KA spilaði í undanúrslitunum gegn Breiðabliki á Kópavogsvelli og þurfti að mæta aftur á höfuðborgarsvæðið í úrslitaleikinn. Það var hlutkesti upp á það hvar úrslitaleikurinn myndi fara fram.
„Auðvitað er ég svekktur með það, þetta er alveg glórulaust. Ég veit að það sem ég segi er afgreitt sem eitthvað landsbyggðarvæl og það má bara heita það fyrir mér. Við erum að fara í fjórðu ferðina og setja okkur í eina til eina og hálfa milljón í mínus í ferðakostnað fyrir mót á meðan Stjarnan fer í Mosfellsbæ og niður í Laugardal. Það er auðvitað svekkjandi en svona eru reglurnar og við vitum þær þegar við byrjum í mótinu. Mér finnst þetta mjög heimskulegar reglur."
Hægt er að sjá viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan þar sem Jóhann Kristinn fer meira yfir undirbúningstímabilið, en hann tók aftur við liðinu í vetur eftir að hafa náð mjög góðum árangri með það fyrir nokkrum árum síðan.
Athugasemdir