Bandaríska félagið Inter Miami hefur sagt skilið við enska þjálfarann Phil Neville. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.
Inter Miami hafði tapað síðustu fjórum leikjum sínum í MLS-deildinni undir stjórn Neville.
Englendingurinn var farinn að ergja sig við fjölmiðla og voru úrslitin að fara í skapið á honum.
Sonur hans, Harvey, spilar með liðinu en stuðningsmenn bauluðu á hann í síðasta leik. Neville kallaði eftir því að þeir myndu beina reiði sinni að sér í staðinn.
Phil var búinn að missa traust stuðningsmanna og hefur hann nú verið látinn fara frá félaginu. Aðstoðarmaður hans, Jason Krels, var einnig látinn fara. David Beckham, góðvinur Phil, er einn af eigendum Inter Miami.
Neville stýrði Inter Miami í tvö ár en áður þjálfaði hann enska kvennalandsliðið og náði frábærum árangri þar. Hann kom liðinu í undanúrslit HM 2019 og vann þá She Believes-mótið í Bandaríkjunum.
Athugasemdir