mán 01. ágúst 2022 18:16
Ívan Guðjón Baldursson
Nice fær Beka Beka (Staðfest) - Schmeichel og Ramsey á leiðinni
Mynd: Getty Images
Beka Beka í leik með Lokomotiv.
Beka Beka í leik með Lokomotiv.
Mynd: EPA

Það er margt að gerast í herbúðum franska félagsins Nice þessa dagana. Félagið réði Lucien Favre, fyrrum þjálfara Borussia Dortmund, fyrr í sumar og er mikið um breytingar í leikmannahópinum.


Kasper Schmeichel, 35 ára markvörður Leicester og danska landsliðsins, er búinn að samþykkja samningstilboð frá félaginu og verður kynntur sem nýr leikmaður á næstu dögum. 

Nice er einnig að tryggja sér Aaron Ramsey á frjálsri sölu og svo ætla Frakkarnir að kaupa Mattia Viti, tvítugan landsliðsmann yngri liða Ítalíu og gríðarlega efnilegan miðvörð Empoli.

Burtséð frá framtíðarkaupum hefur félagið nú þegar tryggt sér þrjá leikmenn eftir að Alexis Beka Beka var staðfestur í morgun.

Nice borgar 14 milljónir evra fyrir Beka Beka sem kemur frá Lokomotiv Moskvu í Rússlandi. Hann er 21 árs varnarmaður með níu leiki að baki fyrir yngri landslið Frakklands og þá fór hann með landsliðinu á Olympíuleikana í fyrra.

Nice er þá einnig búið að krækja í hinn 19 ára gamla Rares Ilie fyrir 5 milljónir evra frá Rapid Búkarest í heimalandinu. Ilie er sóknarsinnaður miðjumaður með um 60 keppnisleiki að baki þrátt fyrir ungan aldur.

Að lokum er pólski markvörðurinn Marcin Bulka genginn í raðir Nice frá PSG og mun væntanlega berjast við Schmeichel um stöðuna á milli stanganna. Nice borgar 2 milljónir fyrir Bulka sem er 22 ára gamall og ólst upp hjá Chelsea áður en hann skipti til PSG.

Bulka spilaði aðeins tvo leiki fyrir PSG og var á láni hjá Nice á síðustu leiktíð en spilaði aðeins einn deildarleik. Pólverjinn varði mark Nice í franska bikarnum þar sem liðið fór alla leið í úrslit en tapaði að lokum 0-1 gegn Nantes. Eina mark leiksins kom úr vítaspyrnu á 47. mínútu.


Athugasemdir
banner
banner
banner