fim 01. september 2022 06:00
Brynjar Ingi Erluson
Ocampos fyllir skarð Antony hjá Ajax (Staðfest)
Lucas Ocampos
Lucas Ocampos
Mynd: Getty Images
Ajax tókst að næla sér í Lucas Ocampos, leikmann Sevilla, á láni á síðustu klukkutímum gluggans, en hann mun fylla skarð Antony sem er farinn til Manchester United.

Hollenska félagið samþykkti 85 milljón punda tilboð Manchester United í Antony á dögunum og fór félagið strax í það að leita að arftaka brasilíska kantmannsins.

Ajax opnaði viðræður við Sevilla við argentínska leikmanninn Lucas Ocampos. Hann flaug til Amsterdam og átti allt að vera klappað og klárt, en stjórn Ajax gaf ekki grænt ljós á skiptin og var hann því sendur aftur til Spánar.

Stjórn félagsins snérist hugur og sólarhring síðar skrifaði hann undir eins árs lánssamning.

Ajax náði að skrá hann í hópinn rétt áður en fresturinn rann út í gær og er hollenski glugginn nú formlega lokaður.

Ocampos er 28 ára gamall og verið á mála hjá Genoa, Marseille, Mónakó og River Plate. Þá hefur hann spilað 10 landsleiki fyrir Argentínu.
Athugasemdir
banner