Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fim 02. janúar 2020 21:51
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
England: Fyrsti leikur ársins auðveldur hjá Liverpool
Frábærir þessir tveir.
Frábærir þessir tveir.
Mynd: Getty Images
Liverpool 2 - 0 Sheffield Utd
1-0 Mohamed Salah ('4 )
2-0 Sadio Mane ('64 )

Liverpool átti ekki í miklu basli með að vinna nýliða Sheffield United í fyrsta leik sínum á árinu 2020.

Mohamed Salah skoraði fyrsta mark leiksins eftir aðeins fjórar mínútur. Virgil van Dijk átti langa sendingu fram völlinn á Andy Robertson. George Baldock rann og fékk Robertson því mikinn tíma til að gefa á Salah sem skoraði.

Markið má sjá hérna.

Stuttu síðar var Salah næstum því búinn að tvöfalda forystuna, en Dean Henderson varði frábærlega frá honum.

Liverpool stjórnaði ferðinni, en Sheffield United komst í ágætis stöðu undir lok fyrri hálfleiksins. Þeir sóttu þá hratt, en Virgil van Dijk komst fyrir eins og svo oft áður.

Sheffield United var enn inn í leiknum þegar flautað var til hálfleiks, en þegar flautað var til síðari hálfleiks var það áfram Liverpool sem stjórnaði ferðinni. Annað markið lá í loftinu og það skoraði Sadio Mane á 64. mínútu eftir samleik við Salah. Henderson varði frá Mane, en Senegalinn fylgdi á eftir og skoraði.

Markið má sjá hérna.

Oli McBurnie var ekki langt frá því að minnka muninn undir lokin, en Alisson sá við honum. Lokatölur voru 2-0 fyrir Liverpool sem er á toppnum með 13 stiga forystu og leik til góða.

Liverpool hefur unnið 19 leiki af 20. Liðið hefur aðeins gert eitt jafntefli í deildinni og tapað engum. Magnaður árangur og það stefnir í fyrsta Englandsmeistaratitil liðsins frá 1990.

Sheffield United hefur komið mjög á óvart á þessu tímabili og situr áfram í áttunda sæti deildarinnar.

Athugasemdir
banner
banner