„Maður þarf ekki að hafa áhuga á fjármálum til að hafa gaman að þessu," segir Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri hjá VÍB, en hann heldur fyrirlestur á fundi sem VÍB og Fótbolti.net standa fyrir og verður á þriðjudag.
„Þetta er fundur þar sem ég og Stefán Pálsson, sagnfræðingur og Luton-maður, erum að fara að tala. Fundurinn verður í Hörpu og það er opið fyrir skráningar og ókeypis inn."
„Þessu verður skipt í tvennt. Það eru fáir skemmtilegri en Stefán þegar hann talar um fótbolta og hann er að fara að tala um veðmálasvindl og spillingu í fótbolta. Hann er búinn að taka saman upplýsingar sem hinn almenni fótboltaáhugamaður veit ekki en hefur áhuga á."
„Ég mun svo fara yfir það sem mér finnst áhugaverðast varðandi fjármál og fótbolta. Af hverju eru ítölsk félög með svona gríðarlega miklar tekjur af sjónvarpsútsendingum? Af hverju er miklu ódýrara á völlinn í Þýskalandi? Hvað eru ensku félögin að borga umboðsmönnum? Hversu mikið fá leikmenn í vasann? Ég er búinn að sjóða þetta saman í hálftíma erindi."
Björn Berg var í viðtali í útvarpsþætti Fótbolta.net í gær og má hlusta á það í spilaranum hér að ofan en hann gaf smá brot af því sem fjallað verður um.
„Það er magnað hvernig FIFA er rekið. Sambandið er í tapi öll ár nema þegar HM er og þá er gríðarlegur hagnaður. Þetta verður bland í poka," segir Björn sem mun bera saman ólíkar áherslur í helstu deildum Evrópu.
„Þjóðverjar leggja gríðarlega áherslu á að fá fólk á völlinn og taka tekjurnar annarstaðar. Ársmiðinn hjá Bayern München er ódýrari en á KR-völlinn sem er algjörlega magnað."
Athugasemdir