Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, ræddi við Fótbolta.net í dag eftir kynningarfund Bestu deildarinnar í dag. Höskuldur varð Íslandsmeistari með Breiðabliki í annað sinn síðasta haust og lagði norska félagið Brann fram tilboð í hann í febrúar.
Breiðablik samþykkti ekki tilboðið og Höskuldur fór því hvergi. Hann var spurður út í áhuga Íslendingaliðsins Brann en þjálfari liðsins er Freyr Alexandersson.
Breiðablik samþykkti ekki tilboðið og Höskuldur fór því hvergi. Hann var spurður út í áhuga Íslendingaliðsins Brann en þjálfari liðsins er Freyr Alexandersson.
Var spennandi að það kom tilboð frá Noregi?
„Auðvitað var það spennandi og mikill heiður. Það kemur óvænt upp að topp 5-10 klúbbur í Skandinavíu sýni verðandi 31 árs gömlum krullhaus hérna á Íslandi áhuga. Það er mikil viðurkenning fyrir mig, mitt getustig og framlag síðasta tímabil og undanfarin tímabil. Ég tek það bara með mér inn í þetta tímabil sem eldmóð, góða viðurkenningu og pepp," segir Höskuldur sem verður 31 árs í september.
Hvernig var fyrir þig að Breiðablik segir nei við tilboðinu?
„Án þess að fara í smáatriði þá var mjög gott samtal milli mín og klúbbsins, þetta gert í samráði. Ég er orðinn fullorðinn maður, með stórt og mikið líf bæði utan fótboltans og hjá Breiðabliki. Málin voru rædd af yfirvegun og ekkert kurr, gremja eða neitt slíkt. Við vorum allir á sömu blaðsíðu með þetta mál sem kom upp. Nú er bara áfram veginn og allir helpeppaðir fyrir '25 tímabilinu hjá Breiðabliki."
Þú ert búinn að verða Íslandsmeistari tvisvar, hugsaðirðu ekkert að þetta væri núna eða aldrei að fara í þetta risaævintýri?
„Það er alveg langt á milli þess að áhugi verði að samningsviðræðum og slíkt. Þetta fór aldrei svo langt. Auðvitað var þetta eitthvað sem ég vildi rýna og skoða vel, gera upp á milli. Ég er mjög sáttur með þann stað sem ég er á í dag og helpeppaður fyrir komandi tímum."
Viðtalið við Höskuld er talsvert lengra og má sjá það í heild sinni í spilaranum efst.
Athugasemdir