Barcelona vill Díaz frá Liverpool - Úlfarnir skoða markverði - City til í að hlusta á tilboð í Grealish
   fös 02. júní 2023 21:25
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Dramatískur endir í Kópavogi - Fram vann botnslaginn
Það var mikil barátta á Kópavogsvelli
Það var mikil barátta á Kópavogsvelli
Mynd: Fótbolti.net
Mynd: Fótbolti.net
Mynd: Fótbolti.net
Kjartan Henry skoraði jöfnunarmark FH
Kjartan Henry skoraði jöfnunarmark FH
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Fred átti stórleik gegn Keflavík
Fred átti stórleik gegn Keflavík
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ótrúleg dramatík átti sér stað er Breiðablik kom til baka og náði í stig er liðið gerði 2-2 jafntefli við Víking í Bestu deild karla í kvöld. Valur fór illa að ráði sínu gegn FH er liðin gerðu 1-1 jafntefli á Origo-vellinum á meðan Fram vann góðan 4-1 sigur á Keflavík í botnsslag.

Víkingar fengu óskabyrjun. Á 13. mínútu skoraði Danijel Dejan Djuric. Nikolaj Hansen gerði frábærlega, tók við boltanum eftir innkast og bjó til svæði fyrir Erling Agnarsson sem kom með sendingu á Danijel og ákvað fyrrum Blikinn að taka skotið í fyrsta og í netið fór boltinn.

Kristinn Steindórsson var í byrjunarliðinu en hann er ný stiginn úr meiðslum. Hann þurfti að vera af velli á 18. mínútu og inn kom Ágúst Eðvald Hlynsson.

Stefán Ingi Sigurðarson komst stuttu síðar í gott færi en Ingvar Jónsson lokaði vel á hann í markinu.

Blikar fóru að sækja aðeins meira á Víkinga en fóru illa með nokkur færi. Liðið fékk blauta tusku í andlitið undir lok hálfleiksins er Birnir Snær Ingason tvöfaldaði forystuna. Oliver Sigurjónsson tapaði boltanum á miðsvæðinu og var það Nikolaj sem kom boltanum á Birni, sem tók sér sinn tíma og kláraði færið vel.

Stefán Ingi fékk tvö lúxúsfæri í síðari hálfleiknum. Fyrst átti hann skalla framhjá úr algeru dauðafæri og síðan annan skalla stuttu síðar sem hafnaði í stöng. Heppnin ekki með honum í dag.

Blikar gáfust ekki upp og tókst Gísla Eyjólfssyni að minnka muninn með skalla eftir hornspyrnu og stuttu síðar vildu þeir fá vítaspyrnu en fengu ekki.

Þegar lítið var eftir af leiknum ætlaði allt að tryllast er Klæmint Olsen, sem klúðraði dauðafæri ársins í síðasta leik, skoraði jöfnunarmarkið með bakfallsspyrnu. Í kjölfarið brutust út mikil læti sem varð til þess að Sölvi Geir Ottesen, einn af aðstoðarmönnum Arnars Gunnlaugssonar, fékk að líta rauða spjaldið.

Logi Tómasson, leikmaður Víkings, ýtti þá Halldóri Árnasyni, aðstoðarþjálfara Breiðabliks og Danijel Dejan Juric lá síðan eftir í grasinu.

Lokatölur 2-2 á Kópavogsvelli. Blikar eru áfram í þriðja sæti með 23 stig en Víkingar á toppnum með 28 stig.

Valsmenn fóru illa að ráði sínu gegn FH

Valur og FH gerðu 1-1 jafntefli á Origo-vellinum í kvöld en FH-ingar spiluðu manni færri í rúman hálftíma.

Heimamenn byrjuðu frábærlega. Adam Ægir Pálsson skoraði eftir gott samspil með Tryggva Hrafni Haraldssyni og setti boltann síðan í netið.

Tveimur mínútum síðar urðu Valsmenn fyrir áfalli þegar Aron Jóhannsson neyddist til að fara af velli vegna meiðsla og kom Orri Hrafn Kjartansson inn í hans stað.

Valsmenn voru líklegir til að bæta við og var því mikill skellur er Kjartan Henry Finnbogason jafnaði undir lok hálfleiksins eftir langt innkast Jóhanns Ægis. Ólafur Guðmundsson náði að flikka boltanum áfram á Kjartan sem skallaði boltann í netið.

FH-ingar spiluðu manni færri frá 57. mínútu eftir að Jóhann Ægir fór í klaufalega tæklingu á Tryggva. Hann fékk rautt spjald fyrir og líklega sanngjarn dómur.

Sigurmarkið kom aldrei og lokatölur 1-1. Valur er í öðru sæti með 23 stig en FH í 4. sæti með 17 stig.

Öruggt hjá Fram

Framarar unnu Keflvíkinga, 4-1, í Úlfarsárdalnum í kvöld en liðið hafði tapað þremur leikjum í röð fram að þessum leik.

Fyrri hálfleikurinn var fremur daufur en þegar lítið var eftir af honum kom meiri ákefð í leikinn og kom fyrsta markið sömuleiðis og var það stórglæsilegt.

Fred Saraiva gerði með með frábæru skoti upp í samskeytin og staðan 1-0 í hálfleik.

Framarar héldu áfram að ógna í þeim síðari og fékk Tiago dauðafæri til að koma liðinu í 2-0 en Mathias Rosenörn sá við honum. Þremur mínútum síðar gerði Aron Jóhannsson annað mark Fram. Fred og Tiago spiluðu sín á milli áður en Fred lagði boltann í teiginn á Aron sem skoraði.

Keflvíkingar komu sér inn í leikinn á 69. mínútu eftir að Tiago braut á Sindra Þór í teignum. Stefan Ljubicic skoraði úr vítinu en fjórtán mínútum síðar skoraði Delphin Tshiembe þriðja mark Framara með skalla eftir hornspyrnu.

Fred gerði út um leikinn og enn og aftur eftir frábært samspil með Tiago. Fred lyfti síðan boltanum yfir Mathias í markinu. Glæsileg frammistaða hjá Tiago og Fred sem sáu um að ná í þrjú stig í dag.

Framarar fara upp í 7. sæti með 11 stig en Keflavík er áfram á botninum með 6 stig.

Úrslit og markaskorarar:

Valur 1 - 1 FH
1-0 Adam Ægir Pálsson ('9 )
1-1 Kjartan Henry Finnbogason ('45 )
Rautt spjald: Jóhann Ægir Arnarsson, FH ('57) Lestu um leikinn

Breiðablik 2 - 2 Víkingur R.
0-1 Danijel Dejan Djuric ('13 )
0-2 Birnir Snær Ingason ('45 )
1-2 Gísli Eyjólfsson ('90 )
2-2 Klæmint Andrasson Olsen ('90 )
Rautt spjald: Sölvi Geir Ottesen Jónsson , Víkingur R. ('90) Lestu um leikinn

Fram 4 - 1 Keflavík
1-0 Frederico Bello Saraiva ('45 )
2-0 Aron Jóhannsson ('57 )
2-1 Stefan Alexander Ljubicic ('70 , víti)
3-1 Delphin Tshiembe ('83 )
4-1 Frederico Bello Saraiva ('90 )
Lestu um leikinn
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner