Branthwaite á lista Man Utd - Lampard vill ræða við Rangers - Messi ætlar að klára ferilinn í Argentínu
   fös 02. júní 2023 19:59
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Stjarnan lék sér að KA
watermark Ísak Andri átti frábæran leik fyrir Stjörnuna
Ísak Andri átti frábæran leik fyrir Stjörnuna
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
watermark Eggert Aron var geggjaður á miðjunni
Eggert Aron var geggjaður á miðjunni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
watermark
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjarnan 4 - 0 KA
1-0 Eggert Aron Guðmundsson ('29 )
2-0 Ísak Andri Sigurgeirsson ('51 )
3-0 Hilmar Árni Halldórsson ('62 )
4-0 Emil Atlason ('83 )
Lestu um leikinn

Stjarnan vann öruggan 4-0 sigur á KA í 10. umferð Bestu deildar karla á Samsung-vellinum í kvöld. Ísak Andri Sigurgeirsson átti stórleik en hann kom að þremur mörkum Stjörnumanna.

Heimamenn þurftu að gera skiptingu strax á 19. mínútu leiksins eftir að Örvar Logi Örvarsson fékk þungt högg á höfuðið eftir viðskipti sín við Jakob Snæ Árnason. Heiðar Ægisson kom inná í hans stað.

Tíu mínútum síðar tóku Stjörnumenn forystuna. Eggert Aron Guðmundsson, sem hafði klúðrað dauðafæri stuttu áður, keyrði með boltann á miðsvæðinu og kom honum á Ísak Andra. Hann komst inn í teig, féll við en náði að pota boltanum á Eggert sem skoraði úr þröngu færi.

Ísak Andri kom boltanum í netið undir lok fyrri hálfleiksins en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Stjörnumenn voru líklegir til að bæta við öðru marki en KA liðið langt frá sínu besta.

Stjarnan hélt áfram að spila frábæran fótbolta í þeim síðari og bætti Ísak við öðru marki á 51. mínútu. Kjartan Már Kjartansson átti laglega sendingu inn í teig á Ísak sem skoraði með laglegri hælspyrnu.

Það færðist líf í leikinn eftir það. Hallgrímur Mar Steingrímsson átti bakfallsspyrnu hinum megin á vellinum en vantaði allan kraft í skotið og átti Árni Snær Ólafsson ekki í neinum vandræðum með að handsama boltann.

Stjörnumenn komust þá í tvö góð færi. Fyrst átti Kjartan Már skot sem Jajalo varði og þá varði hann í annað sinn frá Ísaki Andra.

Þriðja mark Stjörnunnar kom síðan á 62. mínútu en það var varamaðurinn Hilmar Árni Halldórsson sem gerði það. Eggert Aron átti fyrirgjöf sem Ísak náði að pota upp í loftið. Adolf Daði Birgisson missti af boltanum sem datt fyrir HIlmar sem náði góðu skoti og kom Stjörnunni í 3-0.

Emil Atlason kom inná á 69. mínútu og þakkaði traustið fjórtán mínútum síðar með fjórða og síðasta marki Stjörnunnar en það var Eggert Aron sem teiknaði það upp. Hann keyrði fram völlinn, framhjá þremur leikmönnum KA áður en hann lagði boltann í D-bogann fyrir Emil sem setti boltann í vinstra hornið.

Sanngjarn og sannfærandi sigur Stjörnumanna á KA. Stjarnan er því í níunda sæti með 10 stig en KA í 5. sæti með 14 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner