Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
   mán 02. júlí 2018 21:57
Ívan Guðjón Baldursson
Pepsi-deildin: Hilmar Árni sigraði Hafnarfjörð
Þessi hægri fótur er ekkert grín.
Þessi hægri fótur er ekkert grín.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Þorvaldur Árnason fékk sinn skerf af gagnrýni á lokamínútunum.
Þorvaldur Árnason fékk sinn skerf af gagnrýni á lokamínútunum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FH 2 - 3 Stjarnan
1-0 Brandur Olsen ('8)
1-1 Brynjar Gauti Guðjónsson ('37)
2-1 Daníel Laxdal ('48, sjálfsmark)
2-2 Hilmar Árni Halldórsson ('65)
2-3 Hilmar Árni Halldórsson ('88)

FH tók á móti Stjörnunni í toppbaráttu Pepsi-deildarinnar í kvöld. Þrjú stig skildu liðin að í öðru og fimmta sæti fyrir upphafsflautið.

Leikurinn byrjaði af miklum krafti og fengu Garðbæingar dauðafæri til að komast yfir strax í upphafi leiks en Guðmundur Steinn Hafsteinsson lét Gunnar Nielsen verja frá sér.

Klúðrið reyndist dýrkeypt því fimm mínútum síðar var Brandur Olsen búinn að koma heimamönnum yfir eftir frábæran undirbúning frá Hirti Loga Valgarðssyni á vinstri vængnum.

Stjörnumenn leituðu að jöfnunarmarkinu og fundu það hálftíma síðar, þegar Brynjar Gauti Guðjónsson stangaði hornspyrnu frá Hilmari Árna Halldórssyni í netið.

Bæði lið komust nálægt því að komast yfir áður en flautað var til leikhlés en inn vildi boltinn ekki. Staðan 1-1 eftir svakalegan fyrri hálfleik.

Síðari hálfleikurinn tók við af þeim fyrri og voru heimamenn komnir aftur yfir á upphafsmínútunum. Daníel Laxdal rak fótinn út til að stöðva fyrirgjöf frá Viðari Ara Jónssyni og skoraði þannig sjálfsmark.

Liðin skiptust á að sækja en það var Hilmar Árni Halldórsson sem skoraði fyrir Stjörnumenn, eins og svo oft áður. Hilmar jafnaði með þrumuskoti í slánna og inn eftir laglega stoðsendingu frá Guðjóni Baldvinssyni.

Leikurinn hélt áfram að vera fjörugur og þegar spennan var sem mest undir lokin gerði Hilmar Árni, óumtvíræddur maður leiksins, sigurmark Stjörnunnar beint úr aukaspyrnu rétt fyrir utan teig.

Dramatíkin var þó hvergi nærri búin því skömmu eftir aukaspyrnumarkið voru heimamenn komnir í sókn sem endaði með því að Robbie Crawford féll til jarðar innan vítateigs.

Þorvaldur Árnason gaf Robbie gult spjald fyrir dýfu og hélt áfram með leikinn, við litla hrifningu áhorfenda.

Stjarnan er í öðru sæti, tveimur stigum frá toppliði Vals, á meðan FH situr eftir í því fimmta.


Athugasemdir
banner
banner