
Sveindís Jane Jónsdóttir er leikmaður sem landsliðskonur Finnlands hræðast. Finnska blaðakonan Hinni Hirvonen segir við Fótbolta.net að allar þær landsliðskonur sem hún hafi rætt við hafi nefnt Sveindísi á nafn.
Fréttamaður Fótbolta.net settist aðeins niður með Hirvonen í stúkunni á Stockhorn Arena í Thun í gær og ræddi við hana um komandi leik gegn Íslandi á EM. Þetta er fyrsti leikurinn á mótinu og er eftirvæntingin mikil.
Fréttamaður Fótbolta.net settist aðeins niður með Hirvonen í stúkunni á Stockhorn Arena í Thun í gær og ræddi við hana um komandi leik gegn Íslandi á EM. Þetta er fyrsti leikurinn á mótinu og er eftirvæntingin mikil.
„Þau í kringum finnska liðið segja Ísland sigurstranglegri aðilinn. Við höldum það líka. Riðillinn er mjög jafn og allt getur gerst. Ef við hugsum um leikinn, þá vill Finnland halda boltanum en við spurðum þjálfarann hvort það væri sniðugt þar sem Ísland elskar að sækja hratt. Þær vilja ekki halda boltanum og treysta á skyndisóknir," Hirvonen.
Ísland hafði ekki unnið í tíu leikjum í röð áður en þær lögðu Serbíu í vináttuleik fyrir mót. En Finnland hefur líka gengið erfiðlega og komust þær ekki upp úr riðli sínum í B-deild Þjóðadeildarinnar. Þær enduðu þar á eftir Serbíu.
„Finnska liðið treystir á sinn leikstíl, en þær hafa ekki verið góðar á þessu ári. Þjóðadeildin var mikil vonbrigði. Allir bjuggust við því að þær myndu vinna riðilinn og fara upp í A-deild en það gerðist ekki. Finnland tapaði gegn Serbíu og gerði jafntefli við þær líka. Þær hafa ekki verið góðar á þessu ári."
Væri finnska þjóðin ósátt ef liðið tapar gegn Íslandi?
„Ég myndi svara því játandi. Fólk í Finnlandi vill auðvitað sjá finnska liðið vinna. Finnland hefur staðið sig vel gegn Íslandi í gegnum tíðina. Fólk sem fylgist ekki mikið með kvennabolta telur að þær eigi að vinna en fólkið sem hefur horft á leikina í Þjóðadeildinni vita hvernig finnska liðið hefur verið að spila," sagði Hirvonen.
Tala allar um Sveindísi
Því næst var hún spurð hvað hún vissi um íslenska liðið og þar er einn leikmaður sem ógnar mest.
„Ég veit að Ísland er með sterkt lið líkamlega og þær treysta á skyndisóknir. Sveindís Jónsdóttir er mjög, mjög góður leikmaður," sagði Hirvonen.
„Allir í finnska liðinu sem ég hef talað við segja að þær þurfi að passa vel upp á hana. Þær ætla ekki að leyfa henni að sækja á markið því hún er svo hröð og góð. Ég sá markið sem hún skoraði gegn Serbíu og það var stórkostlegt."
„Þær nefndu hana allar og ætla að hafa augun með henni."
Hverjar eru væntingarnar?
Eru væntingarnar miklar hjá Finnlandi fyrir þetta mót?
„Þær hafa ekki verið að spila vel. Þau sem fylgjast með kvennabolta í Finnlandi eru meðvituð um að finnska liðið gætu lent í fjórða sæti í þessum riðli," segir Hirvonen.
„En liðið sjálft segist vilja komast í átta-liða úrslitin og við sjáum hvað gerist. Leikurinn á morgun er afar mikilvægur en jafnvel þó við töpum, þá eigum við möguleika á að komast áfram."
Að lokum sagði Hirvonen að finnska liðið hefði verið í meiðslavandræðum en lykilmenn liðsins væru Eveliina Summanen sem spilar með Tottenham og Natalia Kuikka sem spilar með Chicago Red Stars í Bandaríkjunum. Finnska liðið væri í vandræðum sóknarlega og væri ekki með senter númer eitt.
Leikir Íslands á EM 2025:
2. júlí, Ísland - Finnland
6. júlí, Ísland - Sviss
10. júlí, Ísland - Noregur
Athugasemdir