Fabrizio Romano hefur sett „here we go!" stimpilinn sinn á félagaskipti Rodrigo De Paul frá Atlético Madrid til Inter Miami.
Inter greiðir um 15 milljónir evra til að kaupa þennan argentínska heimsmeistara sem hlakkar til að verða samherji Lionel Messi í Bandaríkjunum.
De Paul er rosalegur liðsstyrkur fyrir Inter en hann er 31 árs gamall og spilaði 53 leiki fyrir Atlético á síðustu leiktíð. Hann á 187 leiki að baki á fjórum árum hjá Atlético þar sem hann hefur verið mikilvægur hlekkur á miðjunni.
Hann er með eitt ár eftir af samningi við spænska félagið og vildi takast á við nýja áskorun.
De Paul var lykilmaður í liði Udinese í ítalska boltanum áður en hann gekk til liðs við Atlético, en hefur einnig leikið fyrir Valencia á ferlinum eftir að hafa alist upp hjá Racing Club í heimalandinu.
Inter er eitt af bestu liðunum í MLS deildinni þar sem Sergio Busquets, Jordi Alba og Luis Suárez eru meðal leikmanna.
De Paul er með 78 landsleiki að baki fyrir Argentínu og er fastamaður í byrjunarliðinu.
Athugasemdir