Man Utd horfir til markvarðarins Martínez - Díaz vill fara frá Liverpool til Bayern
   þri 22. júlí 2025 23:00
Ívan Guðjón Baldursson
Stjörnustrákar naumlega úr leik eftir magnaðan árangur
Eiga einn stærsta sigur mótsins
Mynd: Stjarnan
Mynd: Ellert Örn Erlingsson
Mynd: Stjarnan
Mynd: Stjarnan
Mynd: Breiðablik
Það var mikið fjör í kringum árlega Gothia Cup mótið sem haldið er í Gautaborg og mættu 11 íslensk félagslið til leiks í ár. Félögin mættu til Svíþjóðar með 41 keppnislið úr mismunandi aldursflokkum.

Í U16 ára strákaflokki tóku tólf íslensk lið þátt frá sjö félögum. Breiðablik mætti til leiks með þrjú lið á meðan Fylkir, Stjarnan og Keflavík voru með tvö lið hvert. Völsungur, KF/Dalvík og KA sendu einnig lið til leiks.

Gaman er að greina frá því að rúmlega helmingur íslensku liðanna komust upp úr riðli. Tvö lið frá Blikum og tvö lið frá Stjörnunni komust í útsláttarkeppnina, ásamt A-liðum Keflavíkur, KA og Fylkis.

Eins og greint hefur verið frá komst A-lið Blika lengst íslensku liðanna eða alveg í 8-liða úrslitin þar sem strákarnir voru óheppnir að tapa gegn Maryland Bobcats.

   21.07.2025 08:30
Blikar óheppnir að enda í 5-8. sæti af 193 liðum


B-lið Blika, Breiðablik 2, sigraði sinn leik 3-1 gegn Bobcats í riðlakeppninni, en Bobcats fóru alla leið í úrslitaleikinn. Þar steinlágu þeir gegn Nigerian Eagles - liðinu sem sló Stjörnuna naumlega úr leik í 8-liða úrslitum.

Töpuðu naumlega á móti meisturunum
Stjarnan komst nefnilega alveg jafn langt og Breiðablik í mótinu, auk þess að enda með talsvert betri markatölu.

Garðbæingar gjörsigruðu riðilinn sinn þar sem þeir unnu meðal annars einn af allra stærstu sigrum mótsins, ef ekki þann stærsta, í opnunarleik sínum. Þar skoruðu þeir 25 mörk gegn EDY Sport Enrichment Center frá Eþíópíu.

Stjörnustrákar rúlluðu yfir riðilinn sinn og rústuðu svo Nardo FK frá Noregi og EF Faro frá Portúgal í útsláttarkeppninni, áður en þeir sigruðu sænska félagið GAIS í 16-liða úrslitum.

Í 8-liða úrslitum biðu strákarnir loks ósigurs þegar þeir mættu Nigerian Eagles, sem stóðu uppi sem meistarar í U16 aldursflokki.

Bjarki Hrafn Garðarsson skoraði tvennu fyrir Stjörnuna í þeim leik og var staðan 2-2 allt þar til á lokamínútunum, þegar nígerísku örnunum tókst að gera sigurmark tveimur mínútum frá lokaflautinu.

Nigerian Eagles fóru létt í gegnum mótið þar sem þeir unnu alla leiki sína með tveggja marka mun eða meira, nema gegn Stjörnunni. Þeir sigruðu Lörenskog frá Noregi 3-0 í undanúrslitum áður en þeir fóru létt með Bobcats í úrslitaleiknum, aftur 3-0. Það má því segja að Stjarnan hafi verið næstbesta liðið í U16 ára aldursflokki á mótinu.

KA datt úr leik í 32-liða úrslitum mótsins eftir naumt tap gegn Lörenskog, sem fór alla leið í undanúrslit. Akureyringar gerðu flott mót þar sem þeir unnu þrjá leiki og gerðu eitt jafntefli áður en þeir voru slegnir út.

Fylkir datt úr leik á sama stað eftir að hafa sigrað fimm fyrstu leiki sína á mótinu. Árbæingar féllu úr leik gegn Lilla Torg FF.

Keflavík datt þá úr leik í 64-liða úrslitum gegn Breiðabliki 1 á svipuðum tíma og Breiðablik 2 var slegið út af Landvetter.

Skömmu fyrr hafði Stjarnan 2 einnig verið slegin út af Landvetter í 128-liða úrslitum.

Völsungur, KF/Dalvík, Keflavík 2, Fylkir 2 og Breiðablik 3 fóru í 'neðri keppnina' fyrir liðin sem komust ekki upp úr riðli. Þau voru öll fljót að detta úr leik þar.

KA með bestan árangur í U15
Að lokum mættu fimm íslensk lið til leiks í U15 flokki stráka. KA 1 er eina liðið sem komst upp úr riðli en var slegið út í 32-liða úrslitum.

Akureyringar slógu Norrby og Bjärred úr leik áður en þeir töpuðu gegn Miami FC í 32-liða úrslitunum.

KF/Dalvík, Fylkir og Keflavík voru slegin úr leik án þess að takast að sigra einn leik á mótinu, en KA 2 náði þokkalegum árangri.

B-liðið hjá KA fór í 'neðri' útsláttarkeppnina og sló þar Ängby og Vaksala úr leik áður en röðin var komin að B-liðinu hjá BK Häcken.

KA 2 og Häcken 2 skildu jöfn og þurftu vítaspyrnukeppni til að útkljá sigurvegara. Häcken hafði betur í vítakeppninni.
Athugasemdir
banner