Það voru tíu íslensk lið sem mættu til leiks í U14 ára móti stráka á Gothia Cup í Svíþjóð.
Breiðablik sendi fjögur lið til leiks og komust Breiðablik 1 og Breiðablik 2 bæði upp úr riðli en töpuðu svo í útsláttarkeppninni.
Breiðablik 1 tapaði fyrir heimamönnum í Göteborg í 64-liða úrslitum, sem stóðu svo uppi sem sigurvegarar í aldursflokkinum. Blikar töpuðu 3-1 gegn heimaliðinu og enduðu mótið með þrjá sigra, tvö töp og markatöluna +4.
Hinn tapleikurinn kom gegn sænska félaginu GAIS, en sigrar unnust á Svíunum í Luleå FC, Beirut Football Academy frá Líbanon og kom stærsti sigurinn gegn Englendingunum í liði Prep Schools Lions Blue.
Breiðablik 2 datt úr leik gegn Öjersjö í 128-liða úrslitum.
FH komst lengst íslensku liðanna í U14 móti stráka, eða alla leið í 32-liða úrslit. Þar töpuðu Hafnfirðingar gegn Player Focused Development frá Englandi.
FH fór þægilega í gegnum riðilinn sinn og rúllaði meðal annars yfir BK Häcken 4-0. Strákarnir í FH voru með 15-0 í markatölu eftir fjóra fyrstu leikina þegar þeir mættu Player Focused Development og töpuðu þeim leik 2-0.
Þeir duttu þar með úr leik, en Player Focused Development hélt áfram í næstu umferð og tapaði þar gegn Ultimate Football Club 06 frá Frakklandi. Frakkarnir komust alla leið í undanúrslit en töpuðu þar fyrir Göteborg.
Hin tvö liðin frá FH og öll þrjú lið Framara náðu ekki langt í þessum aldursflokki.
Athugasemdir