Napoli í viðræðum um Garnacho - Villa hafnaði tilboði West Ham í Duran - Vlahovic orðaður við Chelsea
   fös 02. ágúst 2024 15:38
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Óskar Hrafn: Ekki ákvörðun sem var að fara endast út lífið
Þakklátur fyrir traustið.
Þakklátur fyrir traustið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Hver leikur er upp á líf og dauða'
'Hver leikur er upp á líf og dauða'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Stundum ræður maður ekki tímasetningunni'
'Stundum ræður maður ekki tímasetningunni'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Þetta hefu ekki nokkurn skapaðan hlut að gera með Haugesund eða viðskilnaðinn minn við þann góða klúbb'
'Þetta hefu ekki nokkurn skapaðan hlut að gera með Haugesund eða viðskilnaðinn minn við þann góða klúbb'
Mynd: Haugesund
'Þú ert aldrei of góður til að falla'
'Þú ert aldrei of góður til að falla'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Menn eiga að vera stoltir af því og horfa til þess, en jafnframt þarf að vera meðvitaður um að fyrri afrek telja ekkert í dag'
'Menn eiga að vera stoltir af því og horfa til þess, en jafnframt þarf að vera meðvitaður um að fyrri afrek telja ekkert í dag'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Frá því að ég byrjaði að þjálfa þá hefur alltaf verið draumur minn að þjálfa KR'
'Frá því að ég byrjaði að þjálfa þá hefur alltaf verið draumur minn að þjálfa KR'
Mynd: Hulda Margrét
Óskar Hrafn Þorvaldsson var í gær tilkynntur sem þjálfari KR. Hann tekur við liðinu eftir tímabilið en kemur nú inn í þjálfarateymið - verður Pálma Rafni Pálmasyni til aðstoðar út tímabilið.

„Það var fyrsta æfing í gær, kem inn sem aðstoðarþjálfari; ég og Fúsi styðjum við bakið á Pálma. Það var mjög skemmtilegt að snúa aftur á æfingavöllinn. Við fengum eina góða monsúnrigningu á okkur, en bara virkilega gaman," segir Óskar Hrafn.

„Ég held nú að ég sé ekki búinn að gleyma neinu, en auðvitað þarf maður að venjast nýju hlutverki. Ég er ekki vanur því að vera aðstoðarþjálfari og maður þarf að passa sig að velja vel hvenær maður stígur inn og hvenær maður heldur sig til baka. Þetta er nú bara eins og að hjóla, kemur fljótt."

„Það er aðallega röddin sem þarf æfingu, hún verður viðkvæm þegar hún fær langt hlé frá öskrum,."


Þetta skipulag það besta fyrir KR
Hvernig þróuðust hlutirnir þannig að Óskar er verðandi aðalþjálfari KR?

„Það gerist á þessum tíma síðan ég kom inn. Ég kem inn í júní sem ráðgjafi. Þegar það er ljóst að Gregg verður ekki áfram, þá setjast menn niður fyrir alvöru og fara yfir hvernig hlutirnir geta verið, hvar hæfileikar og styrkleiki manna nýtast best. Eftir yfirlegu þá komast menn að þessari niðurstöðu að þetta skipulag sé það besta fyrir KR."

„Það var búið að ákveða það áður að ég myndi taka við sem yfirmaður fótboltamála en svo einhvern veginn gerist þetta á sama degi. Það er algjör tilviljun að þessi tvö störf sameinist á sama deginum. Stundum ræður maður ekki tímasetningunni."

   10.05.2024 07:52
Óskar Hrafn hættur með Haugesund (Staðfest)

Hefur ekkert með Haugesund að gera
Í síðasta mánuði var tilkynnt að hann tæki við sem yfirmaður fótboltamála þann 1. ágúst. Talsvert hefur verið slúðrað um að dagsetningin, 1. ágúst, sé engin tilviljun, snúi að því að Óskar hafi enn verið á launaskrá hjá Haugesund í Noregi. Óskar hætti hjá Haugesund í byrjun maí og voru þetta þriðju mánaðamótin frá þeirri tímasetningu. Er þetta tilviljun?

„Það er algjör tilviljun. Þegar ég kem inn í KR þá var ég búinn að lofa mér í EM stofuna hjá RÚV. Það er gríðarlega tímafrekt og ef þú tekur að þér slíkt verkefni þá verður þú að sinna því almennilega. Mér fannst ekki sanngjarnt að fara í fullt starf og vera með annan fótinn á RÚV og hinn hjá KR. Þetta snýst meira um hvað maður var búinn að taka að sér og ákveða. Svo á maður fjölskyldu sem maður vill hitta. Menn komust bara að þeirri niðurstöðu að 1. ágúst væri góður tímapunktur."

„Þetta hefu ekki nokkurn skapaðan hlut að gera með Haugesund eða viðskilnað minn við þann góða klúbb."

   10.06.2024 13:34
Óskar Hrafn: Hef engan áhuga á að þjálfa meistaraflokk

Brennur fyrir fótbolta og þjálfun
Þegar Óskar var tilkynntur sem ráðgjafi hjá KR sagði hann að hann hefði engan áhuga á því að því að þjálfa meistaraflokk. Hann var spurður út í þau ummæli í dag og hvernig málin hefðu þróast.

„Þegar ég sagði þetta þá var það akkúrat á þeim tímapunkti. Það er ekki hægt að ákveða eitthvað til eilífðar þegar það er eitthvað sem maður hefur brunnið fyrir lengi. En akkúrat á þeim tímapunkti þá hafði ég ekki nokkurn einasta áhuga á að þjálfa meistaraflokk."

„Akkúrat þá var ég búinn að fá nóg af því að vera stjórnað af leikjaniðurröðun KSÍ og annarra sambanda - að láta líf mitt einhvern veginn snúast í kringum það. En svo tekur maður smá pásu frá því og mætir endurnærður."

„Ég brenn fyrir þjálfun, brenn fyrir fótbolta. Ég leit aldrei svo á að þessi ákvörðun væri eitthvað sem myndi endast lífið út."


Þakklátur fyrir traustið
Hvernig heldur þú að það verði að vera þjálfari og á sama tíma yfirmaður fótboltamála?

„Ég hef ekki hugmynd um hvernig það verður. Það verður örugglega mikil vinna og mikil ábyrgð. Þetta er bara verkefni sem ég tek að mér fyrir félagið sem ég elska og er þakklátur fyrir traustið sem þeir sýna mér. Nú er það mitt að sýna að ég sé þess verðugur að vera með þessi tvö mikilvægu störf á sama tíma."

Þurfa að vera auðmjúkir - „Enginn of góður til að falla"
KR er í fallbaráttu, liðið er í 9. sæti, þremur stigum fyrir ofan fallsæti. Hvernig koma KR-ingar sér úr fallbaráttu?

„Mestu líkurnar á því að við komum okkur úr henni eru með því að við séum auðmjúkir og viðurkennum stöðuna eins og hún er. Liðið hefur ekki spilað nægilega vel það sem af er tímabili, stigasöfnunin er ekki nægilega góð og menn verða að horfast í augun við það. KR skipar auðvitað ríkan sess í sögu íslensks fótbolta og hefur verið sigursælt í gegnum tíðina. Menn eiga að vera stoltir af því og horfa til þess, en jafnframt þarf að vera meðvitaður um að fyrri afrek telja ekkert í dag, ekki nema til að ylja fólki um hjartaræturnar á kvöldin og í góðum hittingum."

„Við þurfum að vera auðmjúkir með að við erum í fallbaráttu, hver leikur er upp á líf og dauða. Það er enginn of góður til að falla eða of stór til að falla. Sagan hefur sýnt það að mörg flott lið hafa fallið niður um deild. Einhverjir hafa haldið að þeir séu of góðir til að falla, en það er aldrei raunin. Þú ert aldrei of góður til að falla, ert bara eins góður og þú ert á þeim tímapunkti sem stendur og við þurfum að gera okkur grein fyrir því."


Dreymdi um að þjálfa KR
Óskar er uppalinn í KR, lék með meistaraflokki liðsins og var svo þjálfari yngri flokka hjá félaginu áður en hann fór í meistaraflokksþjálfun. Bjóstu við því þegar þú varst leikmaður í KR að þú yrðrir þjálfari liðsins í framtíðinni?

„Nei, ég gerði það ekki, ekki þannig. Þá var maður ungur og lifði í augnablikinu. En ég er ekkert hræddur við að segja að frá því að ég byrjaði að þjálfa þá hefur alltaf verið draumur minn að þjálfa KR; þjálfa mitt lið, þjálfa liðið þar sem ég ólst upp. Ég eyddi töluvert meiri tíma þar en heima hjá mér á æskuárunum."

„Það er frábært að fa tækifæri til að þjálfa KR. Ég gæti ekki verið hamingjusamari með það,"
sagði Óskar að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner