Belgíski þjálfarinn Philippe Clement skrifaði í dag undir fjögurra ára samning við skoska stórveldið Rangers. Belginn tók við liðinu á miðju tímabili í fyrra og gerði vel með liðið til að byrja með og vann meira að segja skoska deildarbikarinn.
Hann náði þó ekki erkifjendunum í Celtic í deildinni og tapaði einnig gegn þeim í bikarúrslitum skoska FA bikarsins. Rangers endaði í 2. sæti í deildinni á eftir Celtic sem gjörsamlega rústaði deildinni.
Ástfanginn af borginni, vellinum, stuðningsmönnunum og félaginu
Philippe Clement sagði í dag á blaðamannafundi eftir undirskriftina að hann vilji fá þolinmæði frá stuðningsmönnum Rangers. Hann segir að það gæti tekið tíma að byggja upp liðið sem hann vill búa til. Clement er með skýr markmið fyrir Rangers.
„Ég sé mikla möguleika í félaginu og núna þurfum við að gera það betra og sterkara á öllum sviðum félagsins. Það er markmiðið okkar og við erum allir mjög sammála með það.“
„Ég er ástfanginn af félaginu, stuðningsmönnunum, vellinum og borginni“ sagði Clement t.a.m. í dag.
Rangers unnu seinast skosku úrvalsdeildina tímabilið 2020/2021 þegar Steven Gerrard var við stjórnvölin en þá töpuðu þeir ekki deildarleik allt tímabilið.
Rangers hefur ekki unnið leik á undirbúningstímabilinu en þeirra fyrsti leikur á tímabilinu er gegn Hearts á Tynecastle Park á morgun sem er opnunarleikur deildarinnar.
Rodgers stefnir á skosku þrennuna
Brendan Rodgers, þjálfari Celtic, hefur ekki farið leynt með það hversu mikið honum langar að vinna skosku þrennuna í ár og ná betri árangri í Evrópu. Til að vinna skosku þrennuna þarftu að vinna skosku deildina, skoska FA bikarinn og skoska deildarbikarinn.
Celtic vann deildina og FA bikarinn í fyrra en mistókst að fara upp úr riðlinum í Meistaradeildinni í riðli með Atletico Madrid, Lazio og Feyenoord.
Til að ná markmiðunum segir Rodgers að Celtic þurfi að styrkja leikmannahópinn. Þeir hafa bætt við sig leikmönnum eins og Kasper Schmeichel en þeir hafa sýnt mikinn áhuga á framherja Norwich City, Adam Idah. Kasper Schmeichel segist vera að vinna í því að sannfæra landa sinn, Matt O'Riley, um að vera áfram hjá Celtic.
„Markmiðið okkar er að vinna alla innlenda bikara,“ sagði Rodgers. „Þú getur ekki falið þig á bak við neitt annað en það.“
„Við erum í spennandi Meistaradeildarfyrirkomulagi þannig að við viljum komast í umspilskeppnina.“ sagði svo Norður Írinn.
Celtic hefur átt magnað undirbúningstímabil og unnið lið eins og Chelsea, Manchester City og DC United. Fyrsti leikurinn þeirra í deildinni í ár er gegn Kilmarock sunnudaginn næstkomandi.