
HK tryggði sér sæti í Bestu deildinni á næsta tímabili með sigri á Fjölni í Lengjudeildinni í kvöld.
Ívar Örn Jónsson leikmaður HK var til viðtals á Fótbolta.net eftir leikinn.
„Þetta er frábært. Þetta var markmiðið þegar við byrjuðum tímabilið og frábært að ná því þegar tveir leikir eru eftir. Þetta var hark í dag en gríðarlega sætt að klára þetta í dag og ná í þrjú stig á heimavelli," sagði Ívar.
Ívar býst við miklum fögnuði um helgina en hann ætlar ekki að skipuleggja hann.
„Það er eitthvað skemmtilegt, ég leyfi fróðari mönnum að ákveða það og ég fer bara með," sagði Ívar.
„Þetta er búið að vera langt tímabil, þétt spilað og við erum búnir að vera mikið saman hér. Erum búnir að fá lítið frí þar sem við fórum tiltölulega langt í bikar. Hópurinn er þéttur og það verður fagnað í kvöld og á morgun sennilega líka," sagði Ívar að lokum.