Helgi Sigurðsson mun hætta hjá Fram eftir þjálfaraskipti hjá félaginu. Ríkharður Daðason hefur verið ráðinn þjálfari Fram en Auðun Helgason verður honum til aðstoðar.
Helgi var aðstoðarþjálfari með Þorvaldi Örlygssyni en hann mun einnig hætta hjá félaginu líkt og Þorvaldur.
Helgi var aðstoðarþjálfari með Þorvaldi Örlygssyni en hann mun einnig hætta hjá félaginu líkt og Þorvaldur.
,,Ég taldi réttast að stíga til hliðar með honum og það eru engin leiðindi í því," sagði Helgi við Fótbolta.net í dag en hann er sjálfur að ganga frá starfslokum við Fram.
Helgi hefur spilað tvo leiki í Pepsi-deildinni með Fram í sumar en hann mun ekki halda áfram að spila með liðinu.
Þessi 38 ára gamli markahrókur hefur ekki ákveðið hvort hann muni halda áfram að spila fótbolta eða ekki.
,,Maður er ekki búinn að ná áttum með það ennþá. Þjálfun er númer 1, 2 og 3 hjá mér. Ef ég væri 100% leikmaður þá hefði ég getað tekið slaginn áfram en ég er meira með hugann við þjálfun. Ég fékk tækifæri með Todda og fyrst hann er farinn þá er eðlilegt að ég stígi líka til hliðar."
Athugasemdir