Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 03. júní 2021 17:48
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Segja að stærstu félögin geti gleymt því að fá Ísak Bergmann
Ísak í leik með A-landsliðinu.
Ísak í leik með A-landsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísak Bergmann Jóhannesson hefur síðastliðið ár eða svo verið orðaður við stærstu félög Evrópu.

Það hafa verið sögusagnir í kringum hann, sögur um Manchester United, Liverpool, Juventus og Real Madrid.

Það er hins vegar sagt frá því í dag að stærstu félög Evrópu geti gleymt því að þau séu að fara að fá Skagamanninn unga. Það er FotbollDirekt sem segir frá þessum tíðindum.

Það er sagt frá því í greininni að það sé gríðarlegur áhugi á Ísaki og hann verði líklega seldur frá Svíþjóð í sumar. Það er ekkert ljóst núna en það er von á tilboðum í hann fyrr frekar en síðar.

Félög á borð við Man Utd og Liverpool eru sögð áhugasöm, en hann er ekki að fara í það stórt félag. FD hefur rætt við nokkra mismunandi heimildarmenn og komist að því að Ísak vill fá mikilvægt hlutverk í því félagi sem hann fer til, það sé það sem hann metur mest. Hann vill ekki enda á bekknum, í stúkunni eða fara á láni.

Ísak, sem er 18 ára, er núna í verkefni með A-landsliði karla. Hann ræddi við íslenska fjölmiðlamenn á fréttamannafundi í vikunni og var þá spurður út í kjaftasögurnar, meðal annars hvort eitthvað væri til í þeim sögum að viðræður við Úlfana í ensku úrvalsdeildinni væru langt á veg komnar?

„Eins og ég hef sagt áður þá er ég ekki mikið að spá í því. Ég einbeiti mér að fótboltanum. Það er hægt að spyrja umboðsmanninn um þessi mál. Ég er að einbeita mér að því að standa mig vel í leiknum gegn Færeyjum. Mér líður best þannig að einbeita mér að næstu æfingu eða næsta leik," svaraði Ísak sem er með höfuðið rétt skrúfað á.

Hann er samningsbundinn Norrköping til 2023.
Athugasemdir
banner
banner
banner